144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því ef ríkisstjórnin upplifir ástand ríkissjóðs með þeim hætti að ekki séu peningar til að standa við samningsbundið framlag í starfsendurhæfingarsjóð að þá sé óhjákvæmilegt að draga úr því, en þá þarf hún að semja við aðila vinnumarkaðarins. Ástæðan fyrir lögskyldu til greiðslu ríkisins í þennan sjóð er að henni er ætlað að tryggja að það sé eitt réttindakerfi fyrir alla landsmenn. Ef svo heldur fram sem horfir að ríkisstjórnin virði ekki samningsbundnar skyldur um greiðslur í starfsendurhæfingarsjóð þá blasir við sú staðreynd að þeir sem eru með réttindi í lífeyrissjóðum fá betri þjónustu til starfsendurhæfingar en aðrir. Markmið okkar með uppbyggingu þessa kerfis var að tryggja að það væri eitt kerfi fyrir alla landsmenn. Og framlag ríkissjóðs er til þess að tryggja þjónustu kerfisins við alla. Ríkisstjórnin teflir því í hættu og verður að fara að átta sig á því að hún verður að semja um breytingar á samningsbundnum skyldum við aðila vinnumarkaðarins.