144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni greiðum atkvæði gegn þessari breytingu vegna þess að hún felur ekki í sér neina lausn á vandamálinu. Hún er hins vegar til vitnis um það að ríkisstjórnin virðist ekki skilja hvað hún er að gera með því að draga til baka framlag til jöfnunar lífeyrisbyrðarinnar. Það skiptir nákvæmlega engu máli fyrir réttindi sjóðfélaga hvort þetta kemur til framkvæmda hálfu árinu fyrr eða ekki. Það verður, ef svo heldur fram sem horfir, búið að lögfesta skerðingu á þessu framlagi og lögfesta meira að segja hvernig öllum framlögum ríkisins til jöfnunar örorkubyrði verði útrýmt á næstu árum. Stjórnir lífeyrissjóða eru lögskyldar strax um næstu áramót á grundvelli þessa til að skerða réttindi sjóðfélaga sinna. Þannig að það er fráleitt að í þessu felist einhver lausn eða tilraun til að koma til móts við verkalýðshreyfinguna í þeim kröfum sem hún hefur sett fram um að ríkið efni skyldur sínar. Þvert á móti er málið nákvæmlega jafn vont með samþykkt þessarar breytingartillögu.