144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er enn og aftur verið að ráðast að þeim sem veikast standa í þjóðfélaginu með því að stytta atvinnuleysisbótatímabilið úr þremur árum í tvö og hálft. Dregið er úr framlögum til vinnumarkaðsaðgerða og dregið úr framlögum til starfsendurhæfingarsjóðs og það er líka stefnt að því að hætta í áföngum jöfnun örorkubyrða lífeyrissjóða verkafólks og sjómanna svo að lífeyrisgreiðslur til þeirra lækka um 4,5%. Það er nú orðið lýðum ljóst að hagsmunir þeirra sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi eru ekki varðir með skjaldborg þessarar ríkisstjórnar. Hún lætur sér þetta fólk engu varða, heldur heldur áfram að traðka á réttindum þess. Það er ekki einu sinni haft fyrir því að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er búið að hafa fyrir því að berjast fyrir réttindum eins og atvinnuleysisbótum og öðru í þjóðfélaginu til fjölda, fjölda ára, (Forseti hringir.) en ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hristir bara hausinn og horfir í aðrar áttir (Forseti hringir.) og stendur með auðmönnum þessa lands.