144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Afleiðing þessa verður ósköp einfaldlega sú að frá og með áramótum og næstu sex mánuðum missa um 1.300 manns rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta. Um 1.300 manns, á annað þúsund manns, hafa sex mánuðum skemmri tíma til þess að leita sér að vinnu og búa þó við þau kjör sem atvinnuleysisbætur tryggja og er nú víst enginn ofhaldinn af slíku. Þeim er þá hent yfir á sveitarfélögin sem síðasta úrræðið til þess að lifa af og eru settir í þessa stöðu á erfiðasta tíma ársins um áramót þegar í hönd fara daufustu mánuðirnir í atvinnulífinu og þegar minnstir möguleikar eru á að finna störf. Þetta er gert einhliða án samráðs við aðila vinnumarkaðarins og án samráðs við sveitarfélögin sem eiga að taka á sig kostnaðinn. Það bítur höfuðið af skömminni að þótt þetta eigi að spara Atvinnuleysistryggingasjóði um 1.300 milljónir er tryggingagjaldið ekki lækkað, hæstv. fjármálaráðherra, þrátt fyrir þinn mikla áhuga á því sem var lýst í ræðustóli áðan. (Forseti hringir.) Það var ákveðið í fyrra. Þetta verður enn (Forseti hringir.) undarlegra þegar haft er í huga (Forseti hringir.) að atvinnulífið fær ekki lækkun atvinnutryggingagjalds á móti.