144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta þykir mér svolítið athyglisverður liður. Hér er umboðsmaður skuldara í raun og veru að segja að hann þurfi minni pening úr ríkissjóði. Það er vegna þess að umboðsmaður skuldara metur umfang skuldavanda heimilanna miklu minna núna en áður var, við erum sem sagt komin yfir versta hjallann hvað varðar skuldavanda heimilanna. Það er líka margt sem bendir til þess að við séum komin yfir versta hjallann í skuldavanda heimilanna. Skuldir heimilanna eru komnar undir 100% af landsframleiðslu. Skuldir eru 45% af heildareignum heimilanna og svo fram eftir götunum.

Mig langar bara að vekja athygli á þessu. Það blasir við að það er betri tíð hvað þennan vanda snertir en á sama tíma ætlum við að fara að verja hér, við erum búin að samþykkja það í öðrum málum, rúmum 80 milljörðum, 100 milljörðum, í að greiða niður verðtryggðar skuldir heimilanna. Í þessari (Forseti hringir.) atkvæðagreiðslu hefur sumum þingmönnum (Forseti hringir.) verið tíðrætt um slæma stöðu (Forseti hringir.) ríkissjóðs. Þetta dæmi allt saman verður súrrealískara í því samhengi.