144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki horfst í augu við þann vanda og þá þörf sem er á uppbyggingu ferðamannastaða. Af hálfu greinarinnar var varað alvarlega við þessu. Jafnvel þótt draumsýn hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hersveitir náttúruvarðliða um allt land verði að veruleika og henni takist með einhverjum ótrúlegum og ófyrirséðum hætti að sannfæra Alþingi Íslendinga og þjóðina um ágæti reisupassans fyrir næsta vor þá blasir við að tekjur af honum verða ekki að fullu komnar fyrr en á árinu 2016. Það þýðir að fyrsta framkvæmdasumarið samkvæmt þeim fyrirætlunum er hið góða sumar 2017 þegar þjóðin mun fagna því að hafa rekið af höndum sér þessa skelfilegu ríkisstjórn. Þess vegna er verulegt umhugsunarefni að ekki sé gert neitt til þess að tryggja nauðsynlegar framkvæmdir á ferðamannastöðum, hvorki næsta sumar né sumarið þar á eftir.