144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að spurt sé hvað hæstv. ferðamálaráðherra gangi til með því að berjast ekki fyrir þessum málaflokki og fá í hann meira fé. Það er ekki nóg með að sáralítið sé í hann lagt heldur er hann beittur aðhaldskröfu upp á 13 milljónir.

Ég spyr nú hv. fjárlaganefnd og formann hennar: Eru þau tilbúin til þess að láta koma svona fram við sig aftur eins og gert var þegar ráðstafað var aukafjárveitingu sem ekki var samþykkt fyrr en mun seinna? Byrjað var að ráðstafa peningum vegna þess sem hér var sagt við gerð fjárlagafrumvarps núlíðandi árs, að það þurfti í þetta meiri peninga.

Hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt að inniliggjandi séu beiðnir um milljarða, þörfin sé slík. Hvernig dettur henni í hug að leggja fram fjárlagafrumvarp með sáralitlum fjármunum vitandi það að hvort sem frumvarpið er varðar þennan blessaða passa verður að lögum eða ekki þá breytir það ekki því að af honum koma engar tekjur (Forseti hringir.) á næsta ári?