144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er fráleitur málatilbúnaður á ferðinni af hálfu meiri hlutans. Nánast á sömu mínútu og málið var afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd komu fréttir af því að meiri hlutinn hefði dottið ofan á það snjallræði að helminga stuðning við bílaleigur í landinu með því að lækka úr 1 milljón niður í 500 þús. kr. þá niðurfellingu á aðflutningsgjöldum sem gripið var til fyrir nokkrum árum, ásamt með fleiri aðgerðum, til að styðja við bílaleigurnar í erfiðu árferði og styðja þar með líka við ferðaþjónustuna og hinn mikilvæga hlut bílaleigurekstrarins í henni. Það er búið að draga til baka þó nokkuð af þeim aðgerðum sem gripið var til til stuðnings bílaleigunum, en nú á fyrirvaralaust um áramót að lækka þennan stuðning um helming þegar bílaleigurnar hafa löngu, löngu pantað inn sína bíla fyrir næsta ár, gengið frá gjaldskrám sínum og bílaumboðin boðið bílaleigunum tiltekin verð á endurnýjun bílaflotans. Þetta mun leiða til þess að sama þróun hefst aftur, að bílaleiguflotinn (Forseti hringir.) eldist. Þetta er þungt högg á bílaleigurnar í landinu. Þær munu (Forseti hringir.) missa um 100 (Forseti hringir.) millj. kr. út úr rekstri sínum á næsta ári (Forseti hringir.) og hafa ekki efni á því.