144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir andsvarið. Ég vil að það sé samt algjörlega skýrt, og ég veit að hv. þingmaður skilur það, að ef við hefðum ekki lagt fram þessa tillögu hefði ríkissjóður sparað sér 1,1 milljarð. En með því að leggja þetta til tryggjum við að ákvæðið haldist inni. Við viljum standa vörð um öryrkjana og stöndum sérstaklega vörð um þá tekjulægstu.

Hv. þingmaður talar ekki um þær upphæðir sem ég nefndi um þær aukningar sem orðið hafa í almannatryggingum. Væntanlega treystir hann sér ekki til að taka þá umræðu. Með fjárlögum fyrir árið 2015 og líka fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, 2014, bætum við verulega í. Hv. þingmaður getur treyst á að ég mun halda áfram eins og ég mögulega get fyrir bættum kjörum allra þeirra sem fá greiðslur í gegnum almannatryggingar.