144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu, m.a. vegna þess að hér er líka verið að ræða hversu mikið hefur verið staðið við af loforðum. Ég efast svo sem ekkert um góðan vilja hæstv. ráðherra en aftur á móti efast ég mjög um það að hún fái nokkurn stuðning frá ríkisstjórnarflokkunum til þess að standa við þau loforð sem gefin voru.

Mig langar af þessu tilefni að spyrja hæstv. ráðherra hvað hún gerði í launum öryrkja umfram það sem búið var að ákveða, þ.e. að skerðingarmörk mundu falla niður?

Í öðru lagi ætla ég að segja sem sá sem ber ábyrgð á mörgu frá fyrri ráðherratíð að það var útreikningur úr velferðarráðuneytinu á þeim tíma að misgengið þar sem menn höfðu ekki í sjálfu sér staðið við að fullu greiðslur til lífeyrisþega hefði þegar verið um 7–8%, það eru til útreikningar á því. Fyrir síðustu kosningar sögðum við meðal annars í Samfylkingunni að það þyrfti að leiðrétta. Það er ekkert búið.

Síðan segir hæstv. ráðherra hér að það sé 6,7% hækkun á tveimur árum. Við erum að fá tilkynningu um það núna að launin á þessu ári hafi hækkað um 6,4%, bara á þessu ári. Við skulum því ekki hæla okkur af því að búið sé að gera nóg fyrir öryrkjana.

En það sem verið er að ræða eru víxlverkanirnar og samkomulagið sem gert var á sínum tíma og var tímabundið vegna þess að það átti að finna varanlega lausn. Mér er kunnugt um að Öryrkjabandalagið kom í ráðuneytið eftir kosningarnar 2013 og óskaði eftir því að þessi ákvæði yrðu skoðuð, hvernig farið yrði með þau. Þau voru ekki framlengd. Nú koma menn inn í þingið rétt fyrir jól, þar sem enginn tími er til að fjalla um þetta í nefndum, með tillögur um hvernig eigi að leysa þetta með mjög flóknum aðferðum en þó til bráðabirgða. Menn segja: Ef við gerum það ekki mun þetta falla út. Auðvitað er það einn möguleikinn. Enginn af þeim sem fjölluðu um þetta í velferðarnefnd óskar eftir því. Það vilja allir að þetta verði framlengt á einhvern hátt.

Minni hlutinn hefur tekið þá afstöðu að vilja framlengja það með óbreyttu ákvæði. Af hverju er það? (Forseti hringir.) Þá er það þessi 1,1 milljarður sem alltaf er verið að tala um að þetta kosti ríkissjóð, en öryrkjarnir fá þá upphæð. Mig (Forseti hringir.) langar aðeins að heyra á hverjum það bitnar ef það er lækkað úr 1,1 milljarði í um 600 milljónir, eins og verið er að gera tillögu um.