144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þegar fólk sér fram á skerðingu á framfærslu sinni kveinkar það sér að sjálfsögðu, eins og hæstv. ráðherra orðar það. (Félmrh.: Lífeyrissjóðirnir eru að kveinka sér.) Já, en lífeyrissjóðirnir kveinka sér af því að það þýðir skerðingu til þeirra sem fá greiðslur úr sjóðunum.

Varðandi vinnuna ætla ég að fagna því að hv. þm. Pétur Blöndal sé hér kominn og geti komið og glaðst enn meira í dag, ég veit ekki, yfir því að hafa afsalað ríkissjóði tekjum.

Mig langar að spyrja ráðherra nánar út í þetta af því að hún segir að í þeirri vinnu sem er í gangi varðandi endurskoðun á almannatryggingakerfinu eigi að taka á þessu. Þegar velferðarnefnd ræddi um þessi mál á fundi sínum kom það ekki fram þar, það var svona rætt og í þeirri nefnd var ekki mikil umræða um þessi mál, það virtist ekki vera. Ég ætla ekki að fullyrða um það, ég þekki það ekki, ég er ekki í þessum nefndum. En ég hvet hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra til að móta ósk sína með formlegum hætti um hvernig unnið verði í þessu máli og (Forseti hringir.) og tryggja að einhverjum ákveðnum aðila sé falið að fylgja því eftir, því að annars eru þessi mál í lausu lofti og ekki verið að vinna í þeim með markvissum hætti.