144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek hér til máls aðallega til að boða breytingartillögu frá minni hluta nefndarinnar. Á síðasta kjörtímabili, þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson var ráðherra, var byrjað að vinna að samkomulagi við lífeyrissjóðina um þessa víxlverkun, sem er mjög bagaleg og óviðunandi að það séu tvö kerfi sem skiptist á að skerða hvort annað, það er ekki hægt að hafa það svona til lengdar. En þáverandi hæstv. ráðherra, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, vann að slíku samkomulagi sem síðan hæstv. félagsmálaráðherra Árni Páll Árnason undirritaði að lokum. Þetta var á mjög erfiðum tímum í ríkisfjármálunum.

Þetta er svo ósanngjarnt ákvæði með víxlverkanirnar að það var talið að það yrði að bregðast við. Við munum leggja fram breytingartillögu þess eðlis að bráðabirgðaákvæðið sem samkomulagið var um verði framlengt til tveggja ára og auðvitað leggjum við ríka áherslu á það, óháð því hvernig afgreiðsla málsins verður hér í þinginu, að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra leggi ríka áherslu á að þessum málum verði fundin endanleg lausn.

Það hefur verið hér árum saman endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni, verið að endurskoða þetta örorkumat sem einhverjir vilja að verði starfsgetumat, og það þýðir ekki að tengja þetta þeirri vinnu því að reynslan hefur sýnt okkur að við skulum ekki búast við niðurstöðum úr henni á næstunni. Það var komið fram frá fyrri ríkisstjórn frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar, það var dregið aftur, þannig að þegar virðist farið að sjá í land koma einhverjir nýir stjórnarherrar og hætta við og vilja breyta. Þessi víxlverkunarákvæði verður að taka úr samhengi við stóru heildarendurskoðunina. Það verður ekki við það búið fyrir þennan hóp að þurfa að bíða endalaust eftir vinnu sem virðist ekki vera hægt að ljúka.

Ég ætla ekkert að hafa fleiri orð um þetta mál, herra forseti. Við höfum rætt það ágætlega í nefndinni. Frumvarpið eins og það er lagt fram kemur vissulega í veg fyrir að víxlverkanir hefjist að nýju og að því leyti tel ég það skárra en ekkert, ef svo má að orði komast. En við í minni hlutanum teljum að fyrst við gátum árið 2011 lagt til fjármuni í þetta eigi ekki að vera erfiðara ástand núna í ríkisfjármálunum sem örorkulífeyrisþegar eigi að bera sérstaklega.