144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:44]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið. Hv. framsögumaður frumvarpsins, Þórunn Egilsdóttir, og hæstv. ráðherra hafa gert ágætlega grein fyrir þessu máli. Ég get hins vegar ekki staðist það að hnykkja aðeins á því að það er með ólíkindum hvernig hægt er að snúa hlutunum við, eins og í þessu tilfelli. Þarna er verið að bregðast við því að greiðslur til öryrkja skerðist um 500 milljónir, að þessi víxlverkun fari í gang aftur, halda sama þrepi og er í dag, og þá er því allt í einu snúið á þann veg að verið sé að skerða greiðslur til lífeyrisþega um 500 milljónir.

Ef við hefðum framlengt þessi lög, það er alveg rétt, hefðu þeir fengið í viðbót, þeir hefðu þá hækkað um 500 milljónir í viðbót. Ef ekkert er að gert skerðast greiðslur um 500 milljónir. Ef við hefðum framlengt þessi lög þá munar það rúmum milljarði, það er ekki deilt um það. En það er hægt að snúa þessu á þann veg að við séum með þessari aðgerð að skerða greiðslur um 500 milljónir eða jafnvel milljarð, það má alveg færa rök fyrir því. Að sama skapi vil ég færa rök fyrir því að við séum að koma í veg fyrir að greiðslur til öryrkja og lífeyrisþega skerðist um þessar 500 milljónir.

Ég hefði haldið að við gætum fagnað þessu. En auðvitað er alltaf hægt að gera betur, það má endalaust deila um það. En ég vil bara ítreka að við erum hér að koma í veg fyrir að greiðslur til öryrkja og lífeyrisþega skerðist um 500 milljónir.