144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[15:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má segja að ástæðan fyrir því að við leggjum hér til að framlengja samkomulagið eða endurnýja það meðan ekki er fundin varanleg lausn sé í samhengi við ýmislegt annað sem verið er að gera í fjárlögum. Það er ekki rétt, sem hv. þingmaður segir, að fjárlög ákveði það. Fjárlögin eru til umfjöllunar hjá Alþingi í dag, það er ekki búið að afgreiða þau í 3. umr. Ekki var heldur búið, þegar við fórum með þetta í gegnum nefndina, að afgreiða þau í 2. umr. Það er sjálfstæð ákvörðun hvort menn sækjast eftir því að fá meiri pening fyrir þennan hóp.

Þegar það er skoðað að teknar eru 400 milljónir af öryrkjum og lífeyrisþegum í sambandi við þessi 0,5%, sem kom fyrst inn í fjárlögin og var svo dregið til baka vegna þjóðhagsspár — við erum líka með jöfnun á lífeyrisréttindum fyrir ákveðna hópa sem er skert einhliða. Ég hef vakið athygli á því að þrátt fyrir góðan vilja hefur ekki verið staðið við það að koma til móts við öryrkja í samræmi við það sem þurft hefði að gera að öðru leyti. Það hallaði á þá í fyrri ríkisstjórn og menn lofuðu að leiðrétta það allt saman og það er ekki búið.

Í öllu þessu samhengi þá bætist þetta við. Við erum öll á móti því að víxlverkanir hefjist að nýju. Það er óþolandi að ef lífeyrissjóðir hækka þá skerði Tryggingastofnun sínar greiðslur og ef Tryggingastofnun hækkar þá skerði lífeyrissjóðirnir greiðslurnar en þannig var það fyrir 2010. Þess vegna segjum við: Verum nú svolítið rausnarleg og leyfum öryrkjunum að halda þessu en verjum ekki ríkissjóð gegn þeim. Um það snýst málið. Og kannski kemur pólitíkin best fram í þeim skoðunum.