144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[16:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að við öll hér inni séum sammála um það hversu gríðarlega mikilvægt það er að koma í veg fyrir að víxlverkanir þar sem allar kjarabætur til þeirra hópa sem fá greitt úr báðum kerfum, þ.e. almannatryggingum og lífeyrissjóðum, éti hvor aðra upp. Þetta er hins vegar spurning um framkvæmdina. Það er það sem við erum að ræða hér.

Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir sagði áðan að fólk sem fær greiðslur úr almannatryggingakerfinu segist vera að ná endum saman. Og skárra væri það nú ef svo væri ekki. En það er þá líklega sá hópur sem hún er helst að vísa til sem mun fá skerðingu miðað við þá breytingartillögu sem hér er verið að leggja til á víxlverkunum en ekki þeir sem búa við allra lægstu kjörin.

Í mínum huga er það að búa í velferðarsamfélagi, hluti af því er að þó svo maður búi við skerta starfsorku þá eigi það ekki að vera sjálfkrafa ávísun á fátækt. Þess vegna, þó svo auðvitað sé mikilvægt að hugsa mest um þá sem hafa verstu kjörin, megum við hins vegar ekki hunsa hópinn sem er þar rétt fyrir ofan. Við þurfum líka alltaf að hugsa um það hvernig sá hópur sem jafnvel býr á mörkum fátæktar en þó ekki við fátækt hefur það.

Legið hefur fyrir allt þetta ár að bregðast þurfi við svo að víxlverkanirnar „kikki“ ekki aftur inn ef ég má nota svo óformlegt mál, hæstv. forseti. Þess vegna finnst mér svolítið dapurlegt að við séum að ræða þetta mál í rauninni á síðustu metrunum, því að þetta er risastórt mál. Þetta skiptir fjölmarga miklu máli. Eftir því sem ég best veit er nefnd hv. þm. Péturs Blöndals ekki sérstaklega að fjalla um hvernig taka eigi á víxlverkunum. Verið er að fjalla um starfsgetumatið en það eitt og sér er ekki nein töfralausn á öllu þótt það sé svo sem gott fyrir sinn hatt. Ég hef ekki enn þá heyrt neitt um það sérstaklega hvert við erum komin með það hvernig við ætlum til frambúðar að taka á og girða fyrir þessar víxlverkanir.

Eins og fram hefur komið, bæði í dag og mjög oft áður, og allir eru sammála um er almannatryggingakerfið flókið. Þess vegna finnst mér svolítið bagalegt að nú þegar bráðabirgðaákvæði er runnið út þá sé komið með nýtt ákvæði sem þó eigi bara að vera til skamms tíma eða þar til varanleg lausn hefur fundist á málinu. Þetta auðveldar nefnilega alls ekki þeim einstaklingum sem þurfa að fóta sig í kerfinu að gera það. Við erum með þessu breytingarákvæði í rauninni að hluta til að koma með nýtt flækjustig þó það sé auðvitað skárra en að gera ekki neitt og láta víxlverkanirnar taka gildi.

Út af þessu aukna flækjustigi sem og því að þarna er hópur fólks — kjör þess eru ekki endilega allt of góð þó svo það búi ekki við bágustu kjörin. Í ljósi þess hefði ég eiginlega talið skást að við mundum framlengja bráðabirgðaákvæði eins og það er núna.