144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

almannatryggingar o.fl.

459. mál
[16:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka fyrir þessa umræðu. Það sem hefur komið fram hér í dag er það að við erum öll sammála um að óásættanlegt er að gera ekkert og að það frumvarp sem liggur hér fyrir telur stjórnarandstaðan vera skárra en ekki neitt. Eins og kom fram í umræðunni munum við eflaust geta deilt endalaust um bestu leiðina og upphæðirnar, en mér finnst alla vega gott að finna það að menn séu sammála um að við ætlum að ljúka málinu áður en við förum í þinghlé. Það er búið að tryggja fjármuni í fjárlögunum og við höfum afgreitt það í gegnum 2. umr. Þó að hér hafi verið boðaðar ákveðnar breytingartillögur hef ég náttúrlega skilning á því að mikilvægt sé kannski að marka sig aðeins frá stjórnarmeirihlutanum með því að leggja þær tillögur fram.

Það er hins vegar eitt sem ég vildi líka fá að segja, og hef svo sem margítrekað, að það var einnig annað sem við vorum sammála um á síðasta kjörtímabili. Ég tel mikilvægt að fyrrverandi velferðarráðherra fái að heyra það að staðinn var vörður um þá sem höfðu minnst á milli handanna í almannatryggingakerfinu einmitt með þessari sérstöku framfærsluuppbót sem hefur flækt kerfið, en eins og svo oft þegar við grípum svona inn í kerfið þá vill það auka flækjustigið. Þannig að þeir sem urðu fyrir mestu skerðingunum þar voru þeir sem höfðu hærri tekjurnar, höfðu aðrar tekjur en bara bætur úr almannatryggingum. Við höfum verið að taka þær skerðingar til baka. Mér finnst það vera að því leyti fyllilega réttlætanlegt að með þessari breytingu séum við að standa vörð um þá sem eru með lægri greiðslurnar í almannatryggingakerfinu, við munum standa mjög föst á því, ég legg mikla áherslu á það.

Það er hins vegar margvíslegt annað sem við þurfum að gera til að geta hugað betur að þeim hópi. Ég fól velferðarvaktinni sérstaklega að huga að þeim allra fátækustu á Íslandi. Ég þreytist aldrei á að tala um hvað húsnæðiskostnaðurinn getur verið mikill hjá fólki sem er með lægstu tekjurnar. Í mínum huga á það ekki að líðast að börn búi við fátækt á Íslandi. Við þurfum því að vinna að margvíslegu en þetta er bara hluti af því. Ríkissjóður mundi þannig séð gætum við sagt, ef við afgreiddum ekki þetta mál, spara sér rúman milljarð. En við viljum ekki gera það. Við viljum tryggja það að þessir fjármunir fari til þeirra sem eru með lægstu bæturnar og við stöndum vörð um það. Vonandi sjáum við síðan á nýju ári tillögur um það hvernig við getum haldið áfram að efla velferðarkerfið enn frekar.