144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[16:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef það bætir líðan hv. þingmanns að ég hrósi ríkisstjórninni alveg sérstaklega fyrir það að hún framlengi löggjöf frá tíð fyrri ríkisstjórnar þá skal ég alveg gera það. Mikinn heiður og sóma á nú ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar skilinn fyrir að hún skuli framlengja þessa löggjöf frá tíð hinnar ágætu ríkisstjórnar sem sat á undan henni. Það er mér alveg útlátalaust að gleðja hv. þingmann með því að fara um það fögrum orðum.

Hv. þingmaður talaði um söguskýringu og það er til sóma fyrir hann að eiga það á prenti að hann hafi lagt fram frumvarp eða þingmál í svipaða veru á árinu 2007. Að vísu hefur það þá ekki náð fram að ganga enda var hv. þingmaður og flokkur hans þá væntanlega kominn í minni hluta og hefur ekki blásið nógu byrlega fyrir því að gáfuleg og góð mál frá stjórnarandstöðunni næðu fram að ganga.

Þá ætla ég nú að bjóða aðeins betur en hv. þingmaður og rifja það upp að ég og fleiri fengum hér rétt um aldamótin 2000 samþykkta á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun til stuðnings litlum og meðalstórum fyrirtækjum í nýsköpunar- og sprotastarfi og frumkvöðlastarfi. Það var allviðamikil tillaga í einum tíu liðum eða svo þar sem m.a. var mælt fyrir um að framkvæmdarvaldið ætti að undirbúa löggjöf af þessu tagi og grípa til ýmiss konar fleiri aðgerða til þess að styðja sérstaklega við lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég man vel að á þessum tíma var Ísland það aftarlega á merinni í þessum efnum að reglur Evrópusambandsins um stuðningsaðgerðir í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja voru ekki til á íslensku. Meira að segja var ekki til á íslensku norræni sáttmálinn, sem gerður hafði verið rétt fyrir aldamótin, um að í norrænu atvinnulífi ættu menn að hlúa sérstaklega að þessum vaxtarsprotum. Ég varð því að byrja á því að láta þýða þau gögn áður en ég gat notað þau sem fylgiskjöl með þingsályktunartillögunni. Svo mikið hefur nú þessari umræðu þokað áfram að á þessari öld, um það bil frá (Forseti hringir.) því að hún hófst og til þessa dags, erum við þó komin með þessa löggjöf (Forseti hringir.) og margt fleira jákvætt hefur gerst.