144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

405. mál
[16:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég haldi bara áfram að meta það sjálfur hvenær ég sé ástæðu til að hrósa hæstv. ríkisstjórn og hvenær ekki. Ég tel mig almennt sem stjórnmálamann reyna að standa mig í stykkinu og segja kost og löst á hlutunum eins og þeir koma mér fyrir sjónir. Ég á ekki í neinum sérstökum tilvistarvanda með að hrósa hæstv. ríkisstjórn ef hún gerir eitthvað sem ég tel að sé gott. Það bara er allt of sjaldan sem tilefni er til þess, því miður. En þá sjaldan að það gerist, eins og hér, er það ágætt og kemur þá í ljós að oftast er það vegna þess að ríkisstjórnin lætur þá í friði eða framlengir einhverja góða hluti frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Það gerir hún alveg sannarlega í þessu tilviki, það verður hv. þingmaður að viðurkenna.

Ég tek ekki til mín að ekki hafi fleiri hlaupið til liðs við málflutning og tillöguflutning hv. þingmanns á árunum 2007, 2008 eða 2009, ég var þó í stjórnarandstöðu rétt eins og hv. þingmaður. Ég held að hann ætti að beina því sérstaklega til samstarfsflokks síns í ríkisstjórn núna, Sjálfstæðisflokksins, eða þá Samfylkingarinnar. Ég tel ólíklegt að ég hefði ekki tekið vel í tillögur sem ég taldi og hef lengi talið uppbyggilegar ef þær féllu í þá átt að hlúa að nýsköpun og þróunarstarfi í atvinnulífinu og litlum og meðalstórum fyrirtækjum, ykju fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Fjölbreytni er það lykilorð sem mest þurfti á að halda vegna þess að á löngum árabilum var rekin hér atvinnustefna sem stefndi íslensku atvinnulífi glórulaust í einhæfni. Menn sáu aldrei nema sömu lausnirnar, bara álver hér og þar. Það hefur orðið alveg gríðarleg breyting á til hins betra, ég held að það hafi orðið almenn vitundarvakning gagnvart því hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf að það þróist í átt til aukinnar fjölbreytni, að fleiri stoðir standi undir hagkerfinu. Að því miðaði atvinnustefna síðustu ríkisstjórnar, eins og sjá má á þessu máli. Við reyndum að gera allt sem (Forseti hringir.) við gátum við erfiðar aðstæður til þess að leggja grunn að því að hér gæti þróast fjölbreyttara atvinnulíf (Forseti hringir.) með nýsköpun og þróunarstarfi og öðru slíku.