144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er frekar ósáttur við að þessari umræðu ljúki án þess að maður fái nokkur svör. Ég var að lesa aftur samþykktina frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, hún er dagsett í dag. Þeir senda til okkar mjög eindregna áskorun um að gera ekki þær breytingar sem nefndin leggur til. Ég bað formann nefndarinnar um að fara betur yfir þetta mál; hvernig samskiptum nefndarinnar við sveitarfélögin væri háttað og annað í þeim dúr. Ég vil gjarnan fá einhver svör við því að minnsta kosti áður en ég sætti mig við að þessari umræðu ljúki þar með.

Af því að hér er um 2. umr. að ræða á ég að vísu þess kost að taka oftar til máls ef þess þarf, ég hélt reyndar að ræðutími minn væri lengri en fimm mínútur í 2. umr. um málið. En hvað sem því líður heyri ég mér til ánægju að formaður nefndarinnar er búinn að biðja um orðið og kannski fæ ég einhver svör og einhverjar skýringar á því hvernig málið stendur. 3. umr. er að sjálfsögðu eftir en ég held við verðum að vera búin að fá botn í það hvort það er eindreginn ásetningur að afgreiða málið svona þrátt fyrir hina kláru andstöðu sveitarfélaganna við að það verði gert.