144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tók einfaldlega ekki eftir því að hv. þingmaður hefði óskað eftir því að ég brygðist hér við ábendingum hans. Ég stóð líka í þeirri meiningu að þar sem allir þingmenn nefndarinnar eru á álitinu, og þetta hlaut nú nokkra umræðu, ég skal lesa þá upp, hv. þingmenn: Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar og framsögumaður, Katrín Júlíusdóttir, Haraldur Einarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Árnason og Svandís Svavarsdóttir. Ég reikna með, eins og með önnur frumvörp, að þau hljóti einhvers konar umfjöllun inni í þingflokkum, þar á meðal í þingflokki Vinstri grænna. Þar hafði nefndarmaður farið mjög ítarlega yfir það af hverju nefndin er einhuga í þessari afstöðu sinni. Ég rakti það í nefndaráliti mínu hver rökin væru fyrir þessu. Það komu fram athugasemdir þess efnis að sú upphæð sem hér um ræðir nægi ekki til að bæta sveitarfélögum umræddan tekjumissi, þá fæli ákvæðið í sér að hluti tekna jöfnunarsjóðsins væri tekin út fyrir sviga og honum ráðstafað á annan hátt en samkvæmt þeim reglum sem gilda um úthlutun úr jöfnunarsjóði. Það mundi leiða af sér einhvers konar ójafnræði á milli stærri sveitarfélaga og þeirra minni.

Ég er þeirrar skoðunar og nefndin sem slík að þessar athugasemdir séu það stórar að ekki sé hægt núna undir lok þingsins að samþykkja þetta mál nema að fara í frekari skoðanir á þessu tiltekna ákvæði. Þess vegna leggjum við til að svo stöddu, ég vek athygli á því — að svo stöddu — að það falli brott.

Við eigum eftir að taka málið til 3. umr. Ég mun að sjálfsögðu hlusta á allar athugasemdir sem berast og þau bréf. Við höfum verið í atkvæðagreiðslu í meira og minna allan dag og ég hef svo verið bundinn í þingsal þannig að ég hef ekki getað heyrt í viðkomandi aðilum en mun að sjálfsögðu gera það, enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga og öll þau sveitarfélög sem hafa á því áhuga átt greiðan aðgang og fengið rúman tíma til að fara yfir mál sín í nefndinni og eru engar athugasemdir frá nefndarmönnum eða nokkrum um að það hafi ekki verið virt. Mér finnst reyndar dapurt að þingmaðurinn skyldi ýja að því í ræðu sinni. Þetta er eins og það er. Nefndarálitið með breytingartillögunni liggur fyrir og ég legg til eins og áður að það verði samþykkt.