144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég bið engan mann afsökunar á því að taka þetta mál hér upp þó svo (Gripið fram í.) að nefndin sé öll á þessu máli og ég vissi vissulega af því í gegnum minn þingflokksformann að þessi mál hefðu farið í þennan farveg. Það breytir engu um það, ég vil kryfja þetta til mergjar og ég vil fara yfir það. Það er þá nægjanlega ígrundað að breyta málinu með þessum hætti. Það er svo sem lítil bót í því að menn segi: að svo stöddu. Vegna þess að þetta snýst um það hvernig þessum fjármunum verði útdeilt. Eða er nefndin að slá því á frest á einhvern hátt? Ef frumvarpið verður ekki samþykkt eins og það kom fram heldur gerð þessi breyting á, þá er alveg ljóst að þessar tekjur byrja að renna inn í jöfnunarsjóð algjörlega óaðgreint frá öðrum framlögum sem koma með sama hætti og erfitt verður held ég að gera einhverjar ráðstafanir gagnvart því sem liðið er í öllu falli. Þannig að málið leggur þá af stað í annan farveg. Jú, jú, menn gætu auðvitað sett lög á það einhvern tímann á miðju ári og sagt að það sem þá væri ógreitt skyldi fara inn á einhvern annan grunn. Nú þekki ég það svo sem ekki nákvæmlega hvernig ríkið skilar þessum tekjum. Ef ég man rétt er það með reglubundnum hætti sem það gengur til jöfnunarsjóðs eftir því sem tekjustofnarnir innheimtast, bankaskatturinn er að vísu greiddur á haustin. Kannski væri því tími til stefnu fram undir næsta haust til að ákveða um þessa hlutdeild í honum.

Herra forseti. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér sérstaka samþykkt í dag þar sem því er haldið til haga að frumvarpið hafi fengið faglega umfjöllun í samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga og náðst hafi samkomulag á þeim vettvangi um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Breytingartillögur nefndarinnar um að b-liður 2. gr. frumvarpsins falli brott sé í algerri andstöðu við vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga eins og fram hafi komið í umsögn sambandsins um frumvarpið og af hálfu fulltrúa þess á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hún sé einnig í andstöðu við vilja ríkisstjórnarinnar sem lítur á þennan lið frumvarpsins sem lið í að bregðast við neikvæðum fjárhagslegum áhrifum aðgerða ríkisstjórnar og Alþingis gagnvart séreignarsparnaði og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Full sátt hefur þannig verið um það milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að tekjuauki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sökum tekna ríkisins af bankaskatti dreifist til allra sveitarfélaga í hlutfalli við útsvarsstofn þeirra og þar með milda neikvæð áhrif fyrrnefndra aðgerða gagnvart öllum sveitarfélögum. Verði breytingartillagan samþykkt mun þetta aukna fjármagn jöfnunarsjóðs dreifast til hluta sveitarfélaga en ekki þeirra allra eins og til stóð. Jafnframt er fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga stefnt í voða og nægt tilefni er komið upp til að sveitarfélögin leiti eftir því með öllum ráðum að taka yfir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga enda er fjármagn hans í reynd í eigu sveitarfélaga.“

Að lokum var sú bókun samþykkt sem ég hef vitnað til áður:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga leggur áherslu á að frumvarp til breytinga á tekjustofnalögum nái fram að ganga óbreytt á Alþingi. Stjórnin mótmælir breytingartillögu umhverfis- og samgöngunefndar sem fram kemur á þingskjali 718, 366. mál.“

Þetta er nú nokkuð sterkt til orða tekið. Við erum hér að tala um að gera breytingar á einhverju sem búið var að útkljá og ganga frá í fullri sátt í lögbundnu samráði ríkis og sveitarfélaga um tekjuleg samskipti. Það er sagt hér. Við erum að ganga gegn vilja bæði ríkisstjórnar og sveitarfélaganna, ef þar er rétt með farið, og mér finnst að við þurfum þá bara að ræða það. Það getur vel verið að það sé rétt niðurstaða. Ég útiloka það ekkert, en þetta liggur fyrir. Það er svolítið óvenjulegt. Ég hef tilhneigingu til þess, jafnvel þó að ég væri þeirrar skoðunar sem ég gæti vel átt til með að vera, að það væri ekki endilega sjálfgefið eða sanngjarnast að þessir fjármunir færu algjörlega hlutfallslega eftir útsvarstekjum sveitarfélaga því að auðvitað er staða þeirra misjöfn og hlutverk jöfnunarsjóðs að jafna aðstöðumun þeirra er mikilvægt.

Um þetta mál gildir nokkur sérstaða og jafnvel þó maður hefði þessa skoðun finnst mér alltaf þurfa dálítið til áður en við hendum algerlega vilja sveitarfélaganna fyrir borð, ég tala ekki um ef við gerum ekkert með það sem orðið hefur niðurstaðan í lögbundnu samráði ríkis og sveitarfélaga um tekjuleg samskipti. Það hefur sterka stöðu, finnst mér, ef ríkisvaldið og sveitarfélögin hafa sameiginlega komist að niðurstöðu um fjárhagsleg málefni af þessu tagi og Alþingi þarf að hafa góð rök til þess (Forseti hringir.) að hafa það að engu.