144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður hitta naglann á höfuðið þegar hann benti á að staða sveitarfélaga hringinn í kringum landið væri misjöfn. Þegar við stöndum frammi fyrir þeim veruleika held ég að hvorki þingmaðurinn né aðrir í þessum sal séu reiðubúnir að taka mjög stórar ákvarðanir á tiltölulega stuttum tíma þegar öll gögn og upplýsingar liggja ekki nægilega vel fyrir. Við teljum ekki að við munum valda neinum skaða eins og þingmaðurinn kom sjálfur inn á í ræðu sinni. En það er eitt sem ég verð þó að gagnrýna, virðulegi forseti. Þó að einhverjum aðilum eins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga finnist eitthvað vona ég að hv. þingmaður sé ekki að segja að við, þingnefnd Alþingis og Alþingi, eigum bara að leggjast kylliflöt.

Ég vil minna á frumvarp sem kom til atkvæða núna fyrir nokkrum klukkutímum síðan þar sem við féllumst á tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin sæju sjálf um mál varðandi framkvæmdir sem færu í svokallaðan C-flokk og þyrftu að fara í umhverfismat. Þingmaðurinn greiddi atkvæði gegn þeirri tillögu, gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég held ekki að við eigum að halda þeim málflutningi á lofti. Alþingi og nefndir þess eiga að halda sjálfstæði sínu og það er einmitt það sem nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd eru fullkomlega sammála um, enda hefur nefndin náð mjög góðum árangri með mörg mál.

Ég held að þingmaðurinn ætti frekar að ræða þetta í þingflokki sínum við sinn ágæta þingflokksformann áður en hann stígur hér fram og finnur þessu máli allt til foráttu.