144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég virði það að sjálfsögðu að þingmaðurinn hafi sína persónulegu skoðun. Ég verð engu að síður að benda á að nefndin hefur fjallað allítarlega um þetta mál en þó ekki þannig að nefndin vilji taka jafn stóra ákvörðun án þess að frekari gögn liggi fyrir. Ég hef bara ekki heyrt nokkurn mann á þingi eða úti í samfélaginu hafna því að Alþingi eigi að viðhafa slík vinnubrögð. Ég kann því afar illa, verð ég að viðurkenna, að mér séu gerð upp orð og ef það hefur mátt skilja orð mín þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga væri einhver aðili úti í bæ þá leiðrétti ég það hér með. Við höfum átt afar gott samstarf við sambandið. Ég benti bara á það í ræðu minni að það væri nú svona upp og ofan hvort meiri hluti eða minni hluti fylgdi tilmælum eða vilja síns hóps og hv. þingmaður greiddi atkvæði einmitt gegn vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga í máli sem kom til atkvæða hér rétt áðan. Þannig liggur í þessu.

Nú hefur verið óskað eftir því að málið komi til nefndar milli 2. og 3. umr. Við munum taka það upp, að sjálfsögðu. Við höfum rætt það ítarlega og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við gerum það áfram. Eins og ég sagði áðan mun ég hafa samband við þessa aðila, það gafst ekki tími til þess í dag vegna þess að við sátum meira og minna inni í þingsal í atkvæðagreiðslum. Ég veit að þingmaðurinn skilur það. Við munum fara yfir þetta í rólegheitum.

Það er enginn skaði skeður. Við ætlum okkur að leggjast yfir þetta mál og ég vona bara að það verði jafn góð samstaða í umhverfis- og samgöngunefnd og áður hefur verið þó að einhverjum öðrum þingmönnum kunni að finnast sú samstaða of mikil.