144. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2014.

tekjustofnar sveitarfélaga.

366. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara þannig að það sé á hreinu þá var þessu ákvæði sem nú er verið að gagnrýna að hafi verið tekið út ætlað að dreifa ákveðnum hluta tekna jöfnunarsjóðs til sveitarfélaganna á grundvelli hlutdeildar þeirra í heildarútsvarsstofni ársins á undan. Í því felst að tekjurnar dreifast í hlutfalli við stærð. Er þetta lagt til vegna tekjumissis sem sveitarfélögin verða fyrir vegna skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar samkvæmt lögum um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Þetta eru lög sem eru og hafa verið til umræðu hér á haustþingi.

Við erum að fjalla um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er sjóður sem er að mínu mati gríðarlega mikilvægt jöfnunartæki fyrir öll sveitarfélögin í landinu. Fram koma athugasemdir um að ef við ráðumst í samþykkt þessa ákvæðis verði ballansinn á jöfnunartækinu ekki sá hinn sami og hann hefur verið. Þegar við stöndum frammi fyrir ákvörðun af þeirri stærðargráðu þá þurfum við að gefa okkur tíma í málið og fara vel yfir það. Ég er ekki einn þeirrar skoðunar. Eftir að hafa lagst yfir þau rök sem borin voru á borð nefndarinnar eru þingmenn allra flokka í nefndinni sammála mér.

Gott og vel að þingmaðurinn hafi áhyggjur af útspili Sambands íslenskra sveitarfélaga eða stjórnar þess í dag, en ég vil þó nefna (Forseti hringir.) að þau rök sem ég hef borið hér á borð eru af þeirri stærðargráðu að ég held að allir hljóti að skilja þetta, að minnsta kosti gerir nefndin það. (Forseti hringir.) Menn verða því að (Forseti hringir.) gefa sér meiri tíma í málið og ekki samþykkja það á (Forseti hringir.) einni viku eða nokkrum dögum.