144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

sáttanefnd í læknadeilunni.

[10:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég deili sömuleiðis áhyggjum hv. þingmanns af þeirri stöðu sem uppi er í kjaramálum lækna á Íslandi. Sömuleiðis hef ég viðrað eins og fleiri aðrir verulegar áhyggjur af þeirri stöðu sem er að byggjast þar upp. Það er alveg ljóst að ef verkfallsaðgerðir sem boðaðar eru í upphafi næsta árs ganga eftir horfa Íslendingar framan í allt aðra og mun alvarlegri stöðu í heilbrigðisþjónustu en verið hefur núna undanfarnar vikur, allmargar og of margar.

Sömuleiðis deili ég áhyggjum af því hversu hægt viðræðum deiluaðila hefur miðað. Ég er ekki þeirrar skoðunar eftir samtöl við aðila beggja vegna borðsins um að deilan sé beinlínis í hnút. Það er vissulega rétt að lítt miðar í átt til lausnar, en það hefur verið boðaður fundur samningsaðila á morgun. Sú hugmynd sem upp hefur komið um sáttanefnd hefur verið rædd. Ríkisstjórnin hefur rætt hana við sáttasemjara. Ég hef rætt þennan möguleika við deiluaðila. Það er mat þeirra sem ég hef heyrt í að ekki sé tímabært að ganga til þessa verks, en engu að síður vil ég ekki útiloka þann möguleika. Við verðum engu að síður að hafa það í huga að ef sú leið yrði farin að ríkisstjórnin skipaði sáttanefnd tekur hún í rauninni yfir verkefni ríkissáttasemjara og kjarasamninganefnda ríkisins annars vegar og læknanna hins vegar. Þannig að það er töluvert inngrip ef til þess (Forseti hringir.) þyrfti koma.