144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Eins og ég tók fram í mínu máli hefur engin ákvörðun af þessu tagi verið tekin og þess vegna er ekki hægt að standa hér og svara fyrir ákvarðanir sem ekki hafa verið teknar. Ég get hins vegar sagt almennt að næstu skref við að afnema höftin verða ekki til þess að þrengja þau eða gera lífið erfiðara fyrir innlend fyrirtæki eða heimili. Ég tel jafnframt að við séum með betri heildaryfirsýn og á margan hátt betri stöðu til að stíga núna næstu skref en lengi hefur átt við. Við höfum fengið fullmótaðar tillögur frá ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar sem hafa fengið sína kynningu, m.a. í samráðsnefndinni, og eru til frekari úrvinnslu innan stjórnkerfisins. Ég tel rétt að bíða með umræðu um einstakar leiðir þar til þær líta dagsins ljós og verða kynntar fyrir þinginu.