144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

læknadeilan og laun lækna.

[10:48]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða læknaverkfallið og gang mála þar við hæstv. fjármálaráðherra. Orð ráðherrans og staðhæfingar um laun almennra lækna sem féllu hér í síðustu viku hafa vægast sagt farið illa í fólk. Þau hafa hert læknadeiluna enn frekar. Ráðherrann staðhæfði, með leyfi forseta, að „almennur læknir á Landspítalanum [væri] með um 1,1 milljón á mánuði í heildarlaun og yfirlæknar með um 1.350 þúsund í heildarlaun“. Það mátti skilja á ráðherranum að þetta væru of há laun til að vera eitthvað að kvarta yfir.

Ég veit ekki hvar hæstv. ráðherra nær í sínar upplýsingar en á vef Læknafélags Íslands er þetta nokkuð skýrt en alls ekki eins og kom fram í máli ráðherra. Tölurnar sem hæstv. ráðherra nefndi gætu þó hugsanlega átt við lækna, þá helst sérfræðinga, sem eru að vinna um 100% vinnu á Landspítalanum. Af hverju gera þeir það? Það er vegna þess að það er undirmannað en sjúklingarnir halda áfram að streyma inn og það þarf einhver að sinna þeim og það gera þeir. Það gera læknar. Stjórnvöld bjóða ekki upp á fulla mönnun á sjúkrahúsinu en læknar standa sína plikt og sinna okkur, þeir eru fjarri fjölskyldum sínum á meðan og sinna oft og tíðum um 100% vinnu þar.

Ég vil biðja ráðherra að skýra aðeins frekar hvernig málið horfir við honum. Er það orðið læknum til trafala í þessari deilu að þeir taki á sig að manna heilbrigðiskerfið okkar, allt of fáliðuð og þiggi fyrir það laun samkvæmt taxta? Væri betra ef þeir mundu bara stimpla sig út eftir 100% vinnu þannig að við værum með annan hvern mánuð í fullri virkni á Landspítalanum? Þá væru kannski einhverjar launatölur hentugri fyrir hæstv. ráðherra að skilja. Er það sanngjarnt og skynsamleg aðferð hjá hæstv. ráðherra að tala niður til lækna á þennan hátt um leið og hann situr andspænis þeim við samningaborðið?