144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

læknadeilan og laun lækna.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki talað niður til lækna. Ég ber mikla virðingu fyrir störfum þeirra og ég tel að í umræðu um þessa kjaradeilu sé mikilvægt að staðreyndum sé haldið vel til haga. Það er til dæmis staðreynd að sérfræðingar á Landspítalanum eru með um 1.100 þús. kr. á mánuði. Vilji menn fá þessar tölur frá fjármálaráðuneytinu er alveg sjálfsagt að útvega þær, þetta er allt saman til. Það er sama með yfirlækna, þeir eru með um 1.350 þúsund og við erum, já, að tala um heildarlaun. Er það vandamál að samsetning vinnunnar á Landspítalanum og víða annars staðar í kerfinu er með þeim hætti sem hefur birst okkur að undanförnu þannig til dæmis að dagvinnulaunin eru tiltölulega lágt hlutfall af heildarlaunum? Já, mér finnst það ekki gott. Ég skil sjónarmið ungra lækna sem vilja fá hærra hlutfall launa sinna á dagvinnutíma og vera laus við alla þá vinnuskyldu sem er í kerfinu í dag. Ég skil það sjónarmið mjög vel. En þetta er ástand sem báðir aðilar verða að bera ábyrgð á. Þeir sem hafa gert kjarasamninginn með þeim hætti sem hann hefur þróast yfir árin verða báðir að bera ábyrgð á því. Og læknar verða líka að bera ábyrgð á því að kjarasamningar hafi þróast með þeim hætti yfir árið að meiri og meiri áhersla hafi verið lögð á að fá óunna yfirvinnu greidda sem hluta af dagvinnulaunum, að fá álag vegna vakta o.s.frv. Þetta verða báðir aðilar að taka sína ábyrgð á.

Í umræðunni sem hér var verið að vísa til var ég ekki að skattyrðast neitt við lækna. Ég var einfaldlega að beina þeirri fyrirspurn til þingmanns sem kom hingað upp og gerði kröfu til þess að ég færi að leysa deiluna, þá velti ég bara upp tveimur spurningum, í fyrsta lagi: Er eðlilegt að menn leggi áherslu á mjög miklar launahækkanir til lækna á sama tíma og menn eru talsmenn hátekjuskatts? Mér finnst að það sé hluti af umræðunni. Og síðan líka: Er eðlilegt (Forseti hringir.) að mál séu í þessum hnút þegar krafan er í raun og veru um að heil meðalmánaðarlaun í landinu bætist við laun lækna? Er það eðlilegt?