144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

málefni Bankasýslunnar.

[10:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktsson út í málefni Bankasýslunnar og meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég hef gert nokkrar tilraunir til að spyrja hæstv. ráðherra að þessu í umræðum um fjárlög, fjáraukalög og bandorma tengda fjárlögunum, en hæstv. ráðherra hefur þá ekki verið viðstaddur og í raun og veru ekki tekið þátt í umræðum um þau mál síðan hann mælti fyrir þeim í haust.

Nú virðist það vera ætlunin að Bankasýsla ríkisins hafi engar fjárheimildir í fjárlögum næsta árs, þ.e. að Bankasýslan verði einfaldlega ekki til í fjárlögum næsta árs. Þar af leiðandi vaknar spurningin: Á starfsemi Bankasýslunnar að ljúka nú um áramótin? Hvernig sér hæstv. fjármálaráðherra það fyrir sér? Og er eðlilegt að launagreiðslur, biðlaunagreiðslur og annar kostnaður sem hlýtur að fylgja því að vinda ofan af starfsemi stofnunarinnar á næsta ári fari fram án þess að hún sé til í fjárlögum viðkomandi árs?

Lög um Bankasýsluna, nr. 88/2009, halda gildi sínu. Þau eru ótímabundin. Þau eru án sólarlags þó að í þeim standi að vísu að hún skuli ljúka verkefni sínu innan fimm ára. Það má kalla það markmið eða áætlun sem var sett inn í lögin á sínum tíma en hefur síðan ekki gengið eftir þar sem verkefnum Bankasýslunnar er ekki lokið. Hið sama gildir um lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012. Þar hefur Bankasýslan veigamiklu hlutverki að gegna. Heimildir hæstv. fjármálaráðherra til sölu á eignarhlutum eru bundnar við tillögur frá Bankasýslunni og verkefni sem Bankasýslunni eru falin í þeim lögum. Í ljósi þess að hvorugum lögunum hefur verið breytt hlýtur maður að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig á að fara með þetta á næsta ári? Er meiningin að fjármálaráðherra kalli þennan eignarhlut til sín nú um áramótin og þá á grundvelli hvaða lögheimilda? Á þá að hverfa aftur til gamla tímans án nokkurrar armslengdar frá hinu pólitíska (Forseti hringir.) valdi, án nokkurrar valnefndar sem skipar í bankaráð? Gætum við séð gamla tímann ganga aftur jafnvel í því að næsti (Forseti hringir.) formaður bankaráðs Landsbankans verði framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins?