144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

málefni Bankasýslunnar.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að svara fyrir þessi mál hér og greina frá því að eins og fram kom er í lögunum gert ráð fyrir því að Bankasýslan starfi út þetta ár, en stofnunin verður í sjálfu sér ekki lögð niður nema með lagabreytingu. Ég hef kynnt í ríkisstjórn nýja skipan þessara mála þar sem áfram er byggt á armslengdarsjónarmiðum þannig að ætlunin er ekki að taka eignarhald á fjármálafyrirtækjum til ráðuneytisins beint í einhverja skúffu þar, eins og menn segja hér í umræðunni, heldur einmitt áfram að gæta að armslengdarsjónarmiðum. Á meðan málið er ekki komið fram í þinginu er svo sem ekki rétt að fara dýpra ofan í það en það er sem sagt ekki ætlun okkar að loka Bankasýslunni og taka málin til fjármálaráðuneytisins. Allt er rétt sem hv. þingmaður benti á, um sölumeðferð þessara eignarhluta gilda ákveðnar reglur sem ekki verður farið fram hjá.

Bankasýslan hefur gegnt nokkuð mikilvægu hlutverki, ekki bara með því að hafa eftirlit með eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, heldur ekki síður hvað snertir skipulag og uppbyggingu sparisjóðanna í landinu þar sem ríkið hefur þurft að stíga inn á undanförnum árum. Þar hefur byggst upp nokkur þekking sem við hljótum að ætla að gæti áfram nýst eftir því hvaða skipulagi menn koma á þessa hluti til framtíðar. Það hefur verið unnið samkvæmt því allt þetta ár, m.a. á grundvelli niðurstaðna hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, að ekki verði sérstök stofnun sem haldi utan um (Forseti hringir.) eignarhlutina og meðferð þeirra.