144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

málefni Bankasýslunnar.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Það er alveg rétt að það er óheppilegt að þetta skuli skarast svona í tíma, en það hefur legið fyrir allt frá því að fjárlagafrumvarpið var kynnt í september að ekki væri gert ráð fyrir því að stofnunin starfaði á næsta ári. Það eru nokkrar vikur síðan ég kynnti í ríkisstjórn frumvarp um það sem á að taka við. Það mál hefur ekki klárast þannig að hægt sé að leggja það fram á þinginu, en við hljótum að leysa úr þessum praktísku viðfangsefnum sem þingmaðurinn gerir hér að umtalsefni. Ég tek undir það að það hefur safnast upp mikil þekking og reynsla hjá stofnuninni, en við skulum þó gera okkur grein fyrir því að einungis örfáir starfsmenn starfa hjá Bankasýslunni og tæplega hægt að réttlæta heila stofnun í kringum þrjá lykilstarfsmenn. Staðan er sú að það eru jafn margir í stjórn stofnunarinnar og eru þar í lykilstörfum. Þetta er fyrirkomulag sem ég tel að sé óþarfi utan um þau verkefni sem við erum hérna að ræða um.