144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í fjáraukalögum fyrir árið 2014 eru helstu tíðindin þau að heildarafkoma ríkisins batnar frá fjárlögum og afkomubatann má einkum rekja til tveggja óreglulegra tekjufærslna. Í fyrsta lagi reyndust arðgreiðslur langtum hærri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Arðgreiðslur frá viðskiptabönkunum verða 15 milljarðar kr. umfram áætlun fjárlaga og arður frá Seðlabankanum um 4,5 milljarðar kr. umfram áætlun fjárlaga. Það er nauðsynlegt að vanda betur til áætlunargerðar fyrir ríkissjóð. Fjárlög fyrir árið 2014 voru samþykkt 21. desember 2013 þannig að áætla hefði mátt arðgreiðslur af meiri nákvæmni en gert var. Í öðru lagi er afkomubati ríkissjóðs á árinu upp á 21 milljarð því að verið er að lækka eigið fé Seðlabankans og mismunurinn tekinn sem arðgreiðsla í ríkissjóð. Breytingartillögurnar snúast að mestu um kostnað vegna eldgoss og við í Samfylkingunni styðjum auðvitað þær færslur en (Forseti hringir.) sitjum hjá að öðru leyti við afgreiðslu frumvarpsins.