144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta var mjög stutt og skýr framsöguræða hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar um þetta smámál sem matarskatturinn er og allt sem honum tilheyrir. Ég vonaðist satt best að segja til þess að sjá einhverjar viðameiri breytingartillögur frá meiri hlutanum í ljósi umræðunnar, bæði á þingi og úti í þjóðfélaginu, en þá einu að laga til fyrirsögn frumvarpsins. Það er að sjálfsögðu rétt að hafa hana eins og hún á að vera og telja upp öll þau lög eða vísa til þess að verið er að breyta fleiri lögum með breytingartillögu meiri hlutans um að taka heila kafla úr mörgum lögum undir en hér er engu breytt um efnislegt innihald málsins. Það er mikið umhugsunarefni. Það er sem sagt að verða ljóst, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn ætlar að keyra þessar breytingar sínar í gegn og hafa að engu þau sjónarmið sem reifuð hafa verið gegn málinu, bæði af aðilum á þingi, samanber afstöðu minni hlutans og nefndarálit sem stjórnarandstaðan sameinaðist um, og þó ekki síður kannski umhugsunarefni að það gildir einu hvort aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands og fleiri heildarsamtök launamanna eða landlæknir og Lýðheilsustöð reyna að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstjórn, hún er rökheld í þessu máli og ætlar að keyra hér í gegn hækkun á matarskatti, bókaskatti og skatti á menningu. Það bólar ekki á neinum mótvægisaðgerðum sem hægt er að kalla því nafni. Satt best að segja undrar mig til dæmis að meiri hluti ríkisstjórnarinnar skyldi ekki nota eitthvað af því svigrúmi sem mjög hefur nú verið gumað af að sé að verða til með betri afkomu ríkisins til að sýna að minnsta kosti lit í að styðja við bakið á menningarstarfseminni í landinu þegar hún fær á sig þessar auknu álögur.

Hér hafa margir vitnað til þess sem liggur fyrir í gögnum með málinu og kom skýrt fram í heimsóknum rithöfunda og bókaútgefenda þegar þeir komu fyrir þingnefnd, að þar hafa menn þungar áhyggjur. Bókaútgáfan má til dæmis ekki við neinu og býr við afar erfiða afkomu, hefur lítið rétt hlut sinn frá hruni en er þó á lífi, en hér verður henni enn greitt högg. Það eru hreinir smáaurar sem í breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið eru settir inn í Bókasafnssjóð höfunda, Rithöfundasjóð Íslands eða aðra slíka sjóði sem gætu þó verið tæki til að mæta áhrifum virðisaukaskattshækkunarinnar sem færir hátt í 100 millj. kr. væntanlega frá bókaútgáfunni í landinu inn í ríkissjóð og hefur þó ekki verið ágóðanum fyrir að fara í þeirri starfsemi undanfarin ár. Þetta setur enn þrengri skorður þessari lífsnauðsynlegu menningarstarfsemi. Þetta er líklegt til að bitna á kostnaðarsamari útgáfu þar sem ekki er á vísan að róa með sölu. Fagfólk hefur nefnt sem dæmi að það verði enn ólíklegra en ella að einhver forlög telji sig hafa bolmagn til að ráðast í metnaðarfulla útgáfu góðbókmennta, t.d. dýrra myndskreyttra barnabóka, klassískra menningarverka, myndskreyttra bóka um náttúru Íslands eða annars í þeim dúr.

Ríkisstjórnin hefur þetta sem sagt að engu og maður veltir auðvitað fyrir sér menningarpólitík þessarar ríkisstjórnar samanber árásirnar á Ríkisútvarpið og svo þessa atlögu að íslenskri menningu sem felst í hækkun virðisaukaskatts án nokkurra teljandi eða marktækra mótvægisaðgerða.

Matarskattshækkunin sjálf hefur verið mikið rædd og allir kunna orðið möntruna um að menn geti látið sér í léttu rúmi liggja hækkaða matarreikninga heimilanna því að það verði svo ódýrt að kaupa ísskápa og flatskjái — og væntanlega borða þá ef hungrið sverfur að. Annar hv. stjórnarþingmaður hefur getið sér að minnsta kosti heimsfrægðar á Íslandi með þeirri skemmtilegu útfærslu á brauðmolakenningunni að það sé alveg ágætt að dýr rafeindatæki eða heimilistæki lækki í verði þannig að tekjuhátt fólk geti endurnýjað hjá sér og þá geti hinir tekjulægri keypt notað af því. Þetta er stef við brauðmolakenninguna um hvernig ávinningurinn af því að lífskjör hinna tekjuhæstu og ríkustu batni og ávinningurinn hríslist niður eftir þjóðarlíkamanum. Þetta er að vísu sama brauðmolakenning og bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og núna OECD hafa fellt dauðadóm yfir og sagt að hafi afsannast í reynd með rannsóknum og mælingum en það hefur ekki skilað sér til Íslands. Frjálshyggjukreddutrúin er nákvæmlega jafn óbiluð í röðum sjálfstæðismanna og eftir atvikum fylgjenda þeirra í Framsóknarflokknum sem leiðitamir labba götuna á eftir leiðtoganum, Sjálfstæðisflokknum. (ÖS: Þeir skipta ekki um trú.) Nú eru bara búin til ný stef við hana, íslensk stef um það hversu gott það sé að efnaðasta fólkið í landinu geti nú virkilega gert vel við sig og keypt rækilega inn af dýrum og stórum tækjum því að þá muni það þurfa að losa sig við þau gömlu og þau geti lágtekjufólkið keypt notuð á eftirmarkaði.

Ég vil líka nefna sérstaklega niðurfellingu sykurskattsins sem ég fæ enn engan botn í hvernig er hugsaður af hæstv. ríkisstjórn. Mér finnst það vera svo gott dæmi um það hvernig kreddan ber menn ofurliði og rænir þá allri heilli hugsun því að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að stimpla það inn hjá sér að það eigi að fella niður vörugjaldið, það sé ofboðslega gott, og stendur frammi fyrir því að leggja til að ríkið afsali sér hátt í 3 milljarða tekjum af þessum skatti gegn ráðleggingum allra sem eitthvað hafa um lýðheilsu- og manneldismál að segja. Ber þar auðvitað hæst landlæknisembættið og Lýðheilsustöð sem með sterkum rökum biður Alþingi þess lengstra orða að standa ekki svona að málum að akkúrat á sama tíma og hollustuvörurnar eigi að hækka í verði vegna hækkaðs virðisaukaskatts lækki verð á sælgæti, sykruðum gosdrykkjum og öðru slíku. Hið sama kemur á daginn, ríkisstjórnin er algjörlega rökheld í þessum efnum og enginn vilji eða metnaður virðist vera hjá þeim sem hafa að einhverju leyti önnur sjónarmið. Nú þykist ég vita að vissulega séu efasemdir uppi meðal sumra stjórnarliða sem láta það kannski eftir sér einir með sjálfum sér á kvöldin að velta fyrir sér hvort kennisetningin sé alveg örugglega hafin yfir allan vafa, að þetta sé allt saman gott bara í þágu þess að einfalda — (Gripið fram í.) einfalda, segja þeir, einfalda, já, svona ægileg einföldun. Það breytir því ekki að vörugjöld á sérvörur af ýmsu tagi verða áfram við lýði. Það verður vörugjald á áfengi og tóbak, bifreiðar og eldsneyti. Það að reyna að bera (Gripið fram í.) þá þvælu á borð fyrir þingmenn sem lengi hafa fengist við þetta að það væri einhver ægileg flækja í kerfinu að viðhalda einhverju formi sykurskatts, hvort sem það væri kallað vörugjald eða eitthvað annað, nær ekki máli. Einföldunarrökin ættu þá væntanlega að þýða að menn sópuðu öllu burtu, líka vörugjaldi af áfengi, tóbaki, eldsneyti, (Gripið fram í: Góð hugmynd.) bílum og öðru slíku. Góð hugmynd, kalla gleðipinnarnir fram í úr hliðarsal. Það er auðvitað við því að búast. Að sjálfsögðu er enginn að hugsa um ríkissjóð í þessum efnum, þó að hann missi út nokkra milljarða hér og nokkra milljarða þar, það er ekki áhyggjuefni hjá mönnunum sem auðvitað vilja minnka umsvif ríkisins og þrengja fjárhag þess. Það ryður brautina fyrir frjálshyggjuna, lágmarksríkið. Það er að sjálfsögðu lágmarksríki frjálshyggjunnar. Ég skil þetta út frá sjónarhóli þeirra sem gera ekkert með það að á Íslandi eigi að reka norrænt velferðarsamfélag með sæmilegum burðum til að halda hérna uppi öflugu samábyrgu velferðarkerfi. Auðvitað er ágætt að bora í það með aðferðum af þessu tagi og smátt og smátt veikist grunnurinn, hlutfall samneyslunnar af landsframleiðslu sakkar niður og þá bera menn við þrengingum og erfiðleikum í afkomu ríkisins og segja að þetta og hitt sé ekki hægt. Þetta þekkjum við allt saman sem höfum verið lengi í þessum slag.

Umhugsunarefnið er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert lært. Hann eltir sömu mýrarljós nýfrjálshyggjunnar og græðgiskapítalismans algerlega ónæmur fyrir því sem gerðist á Íslandi og er ábyrgðarlausari nú, ef eitthvað er, en hann var þó áður. Nú ættu aðstæður í ríkisbúskap okkar Íslendinga að gera það að verkum að menn tækju raunsæja afstöðu til hlutanna og veltu vandlega fyrir sér við hverju ríkið mætti með þunga skuldabyrði sína ef það ætlar samtímis að eiga nokkurn veginn fyrir lágmarksútgjöldum sem einu sinni var að minnsta kosti samstaða um á Íslandi að ætti að vera á vegum hins opinbera. Það er kannski liðið líka.

Það er margt fleira afar gagnrýnivert við þessar aðgerðir, herra forseti, þó að auðvitað hefði ekki þurft að verða hér mikill pólitískur ágreiningur um niðurfellingu almenna vörugjaldsins ef það hefði verið fjármagnað með öðrum hætti en þeim að hækka verð á lífsnauðsynjavörur almennings. Það er stóri ágallinn við þessa aðgerð og alveg fáránleg útkoma að hækka verðið á grænmeti og ávöxtum, mjólk, kjöti og öðrum slíkum ferskum vörum en lækka sykur og sælgæti í verði. Ef þetta hefði verið öðruvísi gert og sykurskatturinn skilinn eftir býst ég við að að þessum skilyrðum fullnægðum hefði maður getað staðið að því enda í sjálfu sér að mörgu leyti ágætt að losna við vörugjaldið, þ.e. hinn almenna vörugjaldshluta sem er barn síns tíma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur að vísu haft mörg tækifæri til að fella það niður áður en lét það ógert þangað til nú.

Það er fleira sem ber að hafa í huga í þessum efnum. Þá vil ég enn gera að umtalsefni — nú er skaði að hæstv. fjármálaráðherra er að sjálfsögðu gufaður upp, hefur ekki sýnt þessari umræðu um stóru málin sín, fjárlögin, fjáraukalögin, bandormana, (Gripið fram í.) þá lágmarksvirðingu að vera viðstaddur, hvorki við 2. né 3. umr. um þessi mál. Það finnst mönnum auðvitað allt í lagi, er það ekki? Þannig eru hinir nýju tímar. Ráðherrar gufa með reykinn á eftir sér upp úr þingsalnum og hverfa. Það er aldrei hægt að leggja fyrir þá spurningar. Ég á í þingtíðindunum, herra forseti, margar spurningar til hæstv. fjármálaráðherra, m.a. um þetta mál, fjárlögin, en hann hefur aldrei svarað þeim. Þær munu bara standa ósvaraðar í þingtíðindunum um ókomin ár af því að hæstv. fjármálaráðherra hverfur alltaf úr salnum. Enginn ráðherra er viðstaddur, að sjálfsögðu ekki. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar er líka farinn. Þannig er þetta (Gripið fram í.) og þykir bara sjálfsagt mál.

Tímasetning þessara aðgerða er ofan í allt annað, ríkisstjórnin velur að láta sulla öllum þessum breytingum í gegn í einu lagi nú um áramótin. Það þarf ekki mikla þekkingu á þessum málum til að átta sig á að það er að mörgu leyti óhagstæðasti tími ársins. Breytingar á virðisaukaskatti, ég tala nú ekki um ívilnandi aðgerð eins og lækkun efra þrepsins eða niðurfellingu vörugjalds, er hægt að gera hvenær sem er ársins. Versti tíminn til að gera þetta er um áramót. (Gripið fram í.) Versti tíminn er um áramót, herra forseti, ef hv. frammíkallandi vildi vera aðeins rólegur. Það er nauðsynlegt að fara aðeins yfir þetta með hv. þm. Pétri Blöndal úr því að hann gjammar fram í af svona mikilli fáfræði. Það vita allir að á mótum jólaverslunarinnar og útsölutímabilsins sem fer í hönd í byrjun næsta árs er erfiðara en á nokkrum öðrum tíma ársins að rekja það hvort verðbreytingar sem leiða af skattalækkunum eða niðurfelldum álögum skila sér að endingu út í verðlagið. Hver ætlar að mæla hvað er útsöluhlutinn og hvað er skattalækkunarhlutinn í verðlækkununum í janúar? Það er ekki hægt. Þegar verðið fer svo upp aftur og menn segja útsölunum lokið, hver ætlar þá að segja að það hafi hækkað minna á nýjan leik sem nam nákvæmlega skattbreytingunum? Það er ekki hægt. Allir vita það. Við erum með rannsóknir frá háskólum og samtökum í verslun sem sýna að breytingar af þessu tagi fyrr á árum hafa aldrei skilað sér að fullu, oftast seint og iðulega ekki nema að hálfu leyti, stundum jafnvel alls ekki því að verslunin sætir færis og læðir inn myndarlegri og snyrtilegri viðbót í álagninguna hjá sér og það tekur enginn eftir því. Það er engin leið að fylgjast með því að hún hafi raunverulega skilað því sem hún hefði átt að skila vegna minni álagna.

Hvað gerðu bankarnir í kjölfar vaxtalækkunar Seðlabankans? Skiluðu þeir vaxtalækkuninni allri til neytenda? Nei. Var ekki verið að upplýsa að þeir notuðu tækifærið og juku vaxtamuninn? Ætli ástandið í smásölu- eða dagvöruversluninni sé nokkuð skárra? Hafa ekki tvær, þrjár markaðsráðandi keðjur þetta algerlega í hendi sér? Jú, auðvitað. (Forseti hringir.) Vill hv. þm. Pétur H. Blöndal kannski koma hérna upp, heiðra okkur með þátttöku í umræðunni og útlista fyrir okkur af hverju áramótin eru svona heppilegur tími fyrir þessar breytingar?