144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kom víða við í ræðu sinni. Það er eitt atriði sem ég saknaði svolítið, sérstaklega þegar hv. þingmaður talaði um að skoða málin í heildrænu samhengi, og það er sú stóra breyting sem ég tel að felist í almennri lækkun virðisaukaskatts í landinu. Með þessu frumvarpi er verið að lækka almenna þrepið í virðisaukaskattskerfinu sem nær til líklega 85–90% af útgjöldum heimilanna sem eru í því þrepi, úr 25,5% í 24%. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti aðeins, af því að hún vék ekki að þessu í ræðu sinni, látið í ljós álit sitt á þessari breytingu sem er vissulega sú breyting sem er til þess fallin að hafa sem víðtækust áhrif nái hún fram að ganga.