144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, jöfnuður er hér mikill. Og af hverju er það? Ójöfnuður hafði aukist hér gríðarlega í valdatíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks en í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, Samfylkingarinnar til að byrja með í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, var hætt við síðustu skattahækkanirnar og sett meira fé inn í barnabótakerfið, atvinnuleysistryggingakerfið og almannatryggingar, og svo var unnið markvisst að því að efla hér jöfnuð. Það tókst með ágætum, til að mynda með því að koma á þrepaskiptu tekjuskattskerfi sem almenn sátt ríkir um. Ég er mjög hlynnt því, tók þátt í að koma því á og berjast fyrir því. Varðandi virðisaukaskattskerfið er það að sjálfsögðu mjög mikilvægt tekjuöflunarkerfi. Það eru ýmsar ágætar kenningar til í hagfræðinni, þar á meðal um virðisaukaskatt, að hann eigi ekki endilega að hafa tekjujafnandi fúnksjón, það eigi önnur kerfi að gera en samt sem áður hafa mörg ríki valið að beita pólitískum tækjum í gegnum virðisaukaskattskerfið til að tryggja neytendum mikilvægar vörur á hagfelldara verði. Það er gert með jöfnuð að leiðarljósi. Þegar verið er að endurskoða skattkerfi sem þetta (Forseti hringir.) með boðuðum frekari breytingum sem enginn virðist þó vilja tala um er eðlilega ekki hægt að samþykkja bábiljur um skilvirkni þegar ríkisstjórnin virðist á engan hátt vita hvert hún er að fara, hvað þá að það sé samstaða um förina.