144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að velta því upp sem hér var verið að ræða áðan. Framsóknarmenn hafa mikið talað um og fært rök fyrir því að þeir hafi bara kostað þetta 1 prósentustig og mótvægisaðgerðir sem ég hef ekki tölu á og væri áhugavert að vita hversu háar væru til að þetta frumvarp næði fram að ganga. Þeir sem geta lítið annað gert en að kaupa sér í matinn og borga af nauðsynjum horfa á heildaráhrifin, þeir horfa á hvað þeir hafa afgangs þegar þeir eru búnir að borga sinn fasta kostnað. Það er stærsti hlutinn af því sem fer svo í matarinnkaup þannig að það þýðir lítið að tala um heildaráhrif í þessu samhengi.

Hér var áhugavert að heyra í sambandi við matvælin og annað því um líkt að ráðherra fær með reglugerð að selja útrunnar vörur án þess að þær þurfi að aðgreina eða merkja sérstaklega. Það er athugunarvert og gott að Neytendasamtökin hafa fylgt því eftir. Ég trúi því ekki að neytandinn sé því sammála að það þurfi ekki að aðgreina. Mér finnst þetta ekki gott framlag af hálfu framsóknarmanna, ég verð að segja það, til að bæta hér matarmenningu og koma í veg fyrir matarsóun. Það er hið besta mál að sóa ekki mat og við vitum öll að vörur eru ekki endilega ónýtar þó að þær séu komnar fram yfir á dagsetningu en það er nauðsynlegt að merkja þær sérstaklega og aðgreina þær því að þær hafa kannski tapað einhverjum næringargildum og öðru slíku. Auðvitað ber að sýna fram á að við séum að kaupa hér annars vegar nýja vöru og hins vegar vöru sem er komin fram yfir líftíma sinn. Þetta var áhugavert og styður það sem margur hefur sagt, að ráðherrar hafa gjarnan of mikið rými í reglugerðarsetningu.

Mér hefur líka orðið hugsað til þess í þessari umræðu þegar framsóknarmenn hafa talað mikið um hag heimilanna og hvers vegna ríkisstjórnin geri það sem hún er að gera. Ég hugsa að það hefði verið hin mesta kjarabót í þessum virðisaukaskattsbreytingum að færa föt til dæmis í neðra þrepið. Ég hugsa að það hafi haft miklu meiri áhrif á launaumslag þeirra sem verr standa í samfélaginu en að lækka þetta um 1,5% og komið betur þar við. Það hefur í rauninni enginn svarað því af þeirra hálfu, held ég, hvers vegna það var ekki gert. Þetta er kannski eitthvað sem okkur vinstri grænum finnst að minnsta kosti ekki vel hugsað.

Við höfum líka rætt um kostnað samfélagsins vegna sykurskattsins og hvers vegna við teljum rök fyrir því að halda honum utan vörugjaldalækkunarinnar og lækka hann í því samhengi. Það eru auðvitað þessir lífsstílssjúkdómar sem við sitjum uppi með og tannskemmdir, offita o.fl. sem fylgja hinni auknu neyslu sem vestrænar þjóðir búa við núna, þessi auknu vandamál honum fylgjandi. Það að það sé meiri stýring en margt annað á neysluvenjum fólks held ég að megi blása út af borðinu. Það er skynsamlegt að hafa þennan skatt inni, bæði til að spyrna við aukinni notkun sykurs og líka vegna þess að hann hefur þær afleiðingar sem valda miklum kostnaði fyrir samfélagið. Ég held að það hafi verið afar misráðið að gera þetta. Ég hef sagt það áður og get sagt það enn að ég tel að það hefði miklu frekar átt að niðurgreiða vörur sem koma í staðinn og teljast góðar eins og sukrin eða stevia. Allar þessar vörur sem teljast sérstaklega heilsusamlegar eða að minnsta kosti betur til þess fallnar að við innbyrðum þær eru frekar verðháar. Það er áhyggjuefni vegna þess að það segir okkur að þeir sem hafa minna á milli handanna verða kannski að neita sér frekar um þessar vörur og kaupa þær sem óhollari eru. Við eigum ekki að stefna að því.

Af því að hér var líka verið að tala um að jöfnunin sé ekki mikil í gegnum virðisaukaskattskerfið byrjum við að minna á gerð fyrsta fjárlagafrumvarps þessarar ríkisstjórnar þegar hún ákvað að gera breytingu á tekjuskattsþrepunum, að það væri ekki til hagsbóta fyrir þá sem minnst hefðu. Það er hið mesta jöfnunartæki, hefur komið víða fram og verið rökstutt með ágætum. Það er ekki á eina bókina lært heldur margar, ójöfnuðurinn er aukinn í gegnum tekjuskattskerfið og sömuleiðis í gegnum þessa breytingu á virðisaukaskattinum. Það er sorglegt í þessu samhengi að ríkisstjórnin skuli hafa fallið frá 0,5 prósentustiga hækkun til öryrkja sem við vitum að eru í hópi sem nýtur ekki endilega ágætis af þeim breytingum sem hér eru að koma fram. Það er í sjálfu sér merkilegt að þetta er gegn lögum, 69. gr. þar sem það er að minnsta kosti ekki heimilt að gera þetta með þeim rökstuðningi. Ég hvet hv. stjórnarþingmenn til að kíkja eftir því að athygli hefur verið vakin á því.

En það erum ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem höfum rætt neikvæð áhrif þessa frumvarps. Manni finnst sérstakt að ekki sé hlustað á þá sem fara fyrir öllum stærstu launþegasamtökum landsins og hinum ýmsu félögum sem hafa gefið álit sitt á þetta. Það er allt á sömu bókina lært, það er gagnrýnt að mótvægisaðgerðirnar muni bæta hag heimilanna og vísað til þess að þar sé alltaf notað eitthvert meðaltal en rökstutt að meðaltal halli verulega á þá sem hafa lægri laun. Flest þessara samtaka telja ríkisstjórnina ekki með þennan hóp í forgangi.

Hér hefur verið talað um þessar mótvægisaðgerðir, bæði um vörugjöldin og svo barnabæturnar. Við vitum að margir, hvort sem þeir eru með lágar eða millitekjur, eru ekki með börn á framfæri og það eru líka margir sem geta ekki veitt sér þann munað að vera oft í verslunum þannig að þeir geti keypt sér dýrari vöru sem lækkar með vörugjöldunum til að jafna út aukinn kostnað sinn af þessum litlu ráðstöfunartekjum sem þetta fólk hefur. Í ályktun frá stjórn Bárunnar er því mótmælt að ætlast sé til þess að láglaunahópar innan verkalýðshreyfingarinnar beri hitann og þungann af þessari viðreisn í efnahagslífinu og hagsmunagæsla stjórnvalda gagnrýnd. Við vinstri græn höfum gagnrýnt mjög mikið þá aðgerð sem snýr að þeim efnameiri og niðurfelldum sköttum eins og við höfum áður rakið, bæði með því að framlengja ekki auðlegðarskatt og leggja til einhverjar breytingar þar á svo innheimta megi hann af skynsemi sem og auðvitað veiðigjöldin. Undir þetta taka allflest stéttarfélög í athugasemdum sem ég er búin að lesa. Á það er minnt að þetta launafólk stóð þétt við hliðina á ríkisstjórninni síðast, eins og við og aðrir sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar til að reisa við efnahag þessarar þjóðar, og lagði sitt af mörkum en upplifir nú að aðrir hópar komi sér undan ábyrgð og geti bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Hér hefur líka, og ekkert skrýtið við það, verið rætt um skattlagningu á bækurnar, kvikmyndirnar og tónlistina. Það á í sjálfu sér ekkert að koma okkur á óvart og það var mjög táknrænt hérna fyrir helgina þegar þeir sem lýstu í þöglum mótmælum á þingpöllum andstöðu sinni við þennan skatt, þeir settu hendur fyrir augu. Það er það sem manni finnst ríkisstjórnin vera að gera. Við erum lítið málsamfélag og þurfum að gera mikið til að viðhalda tungunni okkar. Það gerum við meðal annars með því að gefa út bækur, gefa út tónlist og tala ekki bara um skapandi greinar á tyllidögum. Það er það sem ekki bara þetta fólk upplifir heldur við mörg hver önnur. Þar eru engar mótvægisaðgerðir þrátt fyrir að hæstv. menntamálaráðherra hafi talið þörf á því.

Hér er líka vegið að RÚV af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar hafa gjarnan listamenn fengið inni, t.d. tónlistarmenn, ég þekki það persónulega, en hafa fengið neitun alls staðar annars staðar á einkamarkaði. Þetta er að öllum líkindum tekið frá þeim sem eiga eftir að stíga fram á tónlistarsviðið og eiga kannski ekki greiða leið inn í einkamiðlana því að einhvers staðar þarf Ríkisútvarpið að taka alla tekjulækkunina sem fram undan er.

Það er líka athugavert í þessu að gert er ráð fyrir að allt gangi eftir, að allt lækki sem á að lækka. Það hækkar sem á að hækka, við vitum að það gerir það alveg örugglega. Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af því að það lækki ekki sýnilega um þetta 1,5% sem þar er en í lokin varðandi mótvægisaðgerðirnar, barnabæturnar og þess háttar, eins og ég sagði áðan, vitum við að neysluskatturinn er ekki endilega góður til að jafna lífskjör í landinu en því hefur ekki verið svarað að öllu leyti hérna hvaða leiðir hagfræðingar eða einhverjir aðrir hafa bent á sem duga betur til að jafna lífskjörin óbeint í gegnum neysluskatta. Því má líka velta fyrir sér af hverju ríkisstjórnin ákvað að skerðingarmörkin yrðu svona lág. Um leið og einstaklingar sem fær barnabætur er kominn með 200 þús. kr. í tekjur fara barnabæturnar að skerðast og þá við 400 þús. kr. hjá hjónum. Hversu stór skyldi hópurinn vera sem í rauninni fær mótvægisaðgerðir við þeim breytingum sem hér er verið að gera?

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur mikið talað fyrir íslenskri menningu og þjóðararfinum en styður hér að það sé skert til þess og á það lagðar álögur. Forsætisráðherra talar gegn því sem hann hefur sagt hér áður þannig að ekki fara saman orð og efndir. Málið er hér til 3. umr. og ríkisstjórnin virðist ekki ætla að taka á þessu máli. Við þyrftum að gera miklu meira af því að skoða neytendahegðun ákveðinna hópa og dr. Arna Varðardóttir hefur farið fyrir slíku í Svíþjóð. Við þyrftum að gera meira af því áður en við gerum miklar breytingar (Forseti hringir.) á svo stóru kerfi sem skattkerfinu okkar.