144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Við píratar erum með tvær breytingartillögur við þetta mál. Önnur þeirra felst í því að koma til móts við hækkun á matvælaverði sem heildarpakki ríkisstjórnarinnar mun hækka um 1–2% samkvæmt hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar, skattanefndar þingsins. Sú mótvægisaðgerð felur í sér að matartollar og innflutningskvótar verði alfarið felldir burt. Við vinnslu þessa máls leituðum við upplýsinga hjá upplýsingaskrifstofu þingsins, var vísað á ráðuneytið, ráðuneytið vísar á efnahags- og viðskiptanefnd, við vinnslu þar var kallað eftir upplýsingum og fengum góðan stuðning hjá ritara efnahags- og viðskiptanefndar sem fór í það að reyna að afla upplýsinga hjá ráðuneytinu. Sjálfur fór ég upp í ráðuneyti. Þar var borið við að fara í gegnum nefndina og almennt að þeir mættu ekki hygla þingmönnum sérstaklega eða þyrftu að gæta jafnræðis hvað þetta varðar og vísuðu á þingið, að það ætti að vinna þetta.

Þetta var í vinnslu í þinginu í einn og hálfan mánuð og kallað var eftir þessum upplýsingum. Ekki fengust nægar upplýsingar til að klára fyllilega heildarpakkann á þessu máli. Þessar mótvægisaðgerðir áttu að koma á móti hækkun á matvælaverði, með því bara að hækka barnabætur sem munu samt ekki gagnast öllum foreldrum sem eiga börn, munu ekki gagnast öryrkjum og ekki eldri borgurum þannig að sú mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar er hriplek. Í staðinn væri tekin út þessi vonda tekjuleið og vernd á búvöruframleiðslu, vond tekjuleið fyrir ríkið og vond leið til að styðja við búvöruframleiðslu vegna þess að hún er óskilvirk. Það er miklu skilvirkara að afnema þetta af því að þessi ígildi tollverndarinnar sem búvöruframleiðendurnir fá eru ekki nema svona 60% á móti því sem það kostar neytendur í hærra matvælaverði. Þetta er vondur skattur, vond leið til að styðja við búvöruframleiðslu í landinu. Það væri hægt að fella í burtu þetta vonda og óskilvirka kerfi og fara aðra leið, ná inn fé sem þarf til að styrkja búvöruframleiðslu með skilvirkari skattheimtu sem mundi valda minni hækkun á matvælaverði til neytenda og skila því þá bara með beinum framlögum til búvöruframleiðenda. Það er sú mótvægisaðgerð sem við vorum að vinna að. Þá fengju búvöruframleiðendurnir mótvægisaðgerðina og tapa engu fjárhagslega á þessari stöðu en í raun mundu allir græða. Þeir mundu fá óskilvirkan skatt út af borðinu, lægra matvælaverð og búvöruframleiðendur mundu samt fá sitt. Þetta rúmast algjörlega innan hugmyndafræði bæði Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og leiðarljóssins í skattatillögum ríkisstjórnarinnar sem er að gera skattkerfið skilvirkt. Þetta er sú leið sem við kölluðum eftir upplýsingum um til að geta unnið til fulls en þær upplýsingar skiluðu sér ekki þrátt fyrir að það hefði verið ágætur tími fyrir það.

Þetta sýnir að fjárlaga- og tekjuöflunarfrumvörpin eru fyrir ríkisstjórnina og að þingmenn eiga helst ekki að vera að skipta sér mikið af þeim, ekki einu sinni í gegnum þingnefndir. Hún hefur ekki komið með heildstæðar tillögur sem rúmast innan þess sem ríkisstjórnin kallar eftir. „Verið helst ekkert að skipta ykkur af þessu og ef þið gerið það fáið þið ekki upplýsingar til að klára málið.“ Það sem stendur eftir og sem var hægt að gera er að fella út alla tolla og alla innflutningskvóta á matvæli og þá verður ríkisstjórninni látið eftir að fylla það gap, finna þann skattstofn sem væri skilvirkari en að hafa þessa matartolla og matarkvóta sem er klárlega hægt að gera. Það kom mjög skýrt fram í nefnd sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lét gera 2006 að árangursríkasta leiðin til að lækka matvælaverð væri að lækka verulega tolla og kvóta á innflutt matvæli. Við vitum þetta. Við vitum það og ríkisstjórnin gæti þá klárlega farið í að finna þessa peninga á móti og sett þá inn í fjáraukalög ef því væri að skipta, ef hún hefði áhuga á því. Þetta er skilvirk, réttlát, sanngjörn og góð mótvægisaðgerð til að koma í veg fyrir hækkun á matvælaverði. Þetta mundi lækka matvælaverð um 1–2% eins og áður segir sem er akkúrat það sem heildarpakki ríkisstjórnarinnar mun hækka matvæli um eins og hann stendur núna. Hún hefur ekki hug á að breyta honum neitt meira af því að menn eru nú þegar búnir að ákveða að fara ekki úr 7% upp í 12% heldur úr 7% í 11% sem mætti kannski segja að hafi alltaf verið í bókunum. Réttilega, þannig var það skriflegt upprunalega. Eins og menn vita þurfti að gefa Framsóknarflokknum eitthvert skjól varðandi hækkun matvælaverðs, að hann hafi komið til baka og sagt: Nei, við ætlum ekki að hækka í 12%, við ætlum að hækka í 11%. Sjáið hvað við hugsum mikið um heimilin og matvælaverð hvað það varðar.

Þessi breytingartillaga varðar virðisaukaskatt á laxveiði. Á henni eru þingmenn úr öllum minnihlutaflokkunum. Hún er sanngjörn og skilvirk, hún rúmast innan þess ramma sem ríkisstjórnin kallar eftir og Bjarni Benediktsson talar um, að fækka undanþágum eins og mögulegt er í virðisaukaskattskerfinu af því að undanþágur eru óskilvirkar. Leiðarljósið er einföldun og skilvirkni í skattatillögum ríkisstjórnarinnar. Leiðarljósið er að minnsta kosti sett upp þannig að við reyndum að finna hvað væri hægt að gera innan þess ramma sem ríkisstjórnin kallar eftir. Viti menn, það er hérna 2 milljarða kr. skattstofn á veiði í ám, vötnum, lónum og slíku. Þetta er undanþága sem var búin til, eða ekki beint undanþága, menn fundu leið til að skattleggja þetta ekki 1990. Í bréfi ríkisskattstjóra segir: Já, ef veiðimenn þyrftu að borga meira fyrir þau veiðileyfi þar sem menn eru að veiða í lónum, ám og vötnum eftir því sem meiri fiskur væri veiddur væru leyfin virðisaukaskattsskyld. Þá væri það vörusala, sala á matvælum; á fiskinum.

En það mætti líta á þetta sem fasteignaleigu. Ef verðið er fast og óháð magni getum við horft á þetta sem fasteignaleigu og þannig náðu menn að lenda því inn í undanþágu í virðisaukaskatti, í gegnum fasteignaleigu. Í þessari undanþágu sem núna er liður númer 8 í 2. gr. virðisaukaskattslaganna kemur samt sem áður alveg skýrt fram að fasteignaleiga sé vissulega undanþegin virðisaukaskatti en þó ekki útleiga á hótelherbergi, tjaldstæði o.s.frv. Jafnvel þó að skatturinn geti litið á það sem fasteignaleigu, sem það kannski er, er það ekki þannig í tilliti virðisaukaskattslaganna heldur ætlum við að líta á það svoleiðis. Við ætlum ekki að líta á það sem fasteignaleigu þegar menn leigja hótelherbergi í einn, tvo eða þrjá daga. Við ætlum samt sem áður að hafa það inni í virðisaukaskattinum.

Það sem þessi breytingartillaga gerir er nákvæmlega það sama og er gert með hótelherbergi. Þó að skatturinn geti litið svo á varðandi veiðileyfi í á í einn, tvo, þrjá daga eða svo ætlum við löggjafinn samt sem áður ekki að líta á það sem fasteignaleigu, að sjálfsögðu ekki. Þar af leiðandi verður það virðisaukaskattsskylt eins og það að leigja sér hótelherbergi í nokkra daga.

Í þessu tvennu eru fólgnar breytingartillögur Pírata og þingmenn minnihlutaflokkanna eru líka á breytingartillögunni um virðisaukaskatt á laxveiði. Með þessu erum við búin að koma til móts við mótvægisaðgerðir sem hæstv. fjármálaráðherra kallaði eftir. Hann kallaði eftir mótvægisaðgerðum við hækkun heildarpakkans. Þetta er mótvægisaðgerð sem þýðir að matvælaverð hækkar ekki. Það þýðir að sjálfsögðu það líka að ríkisstjórnin mun þurfa að fara í vinnu við að setja sitt starfsfólk í vinnu sem þingmaður fékk ekki gerða en ráðherrarnir sem hafa þessa starfsmenn á sínum snærum, geta farið í þá vinnu sem þarf að fara í til að finna skilvirkari skattleið til að búvöruframleiðendur verði ekki fyrir skaða af þessu. Matvælaverðið mun lækka með skilvirkari skattheimtu en þessum tollum og þá munu neytendur græða, búvöruframleiðendur munu græða og allir munu græða á því að skattkerfið í heild verði skilvirkara.

Svo er 2 milljarða kr. skattstofn í gegnum laxinn þannig að þetta eru mótvægisaðgerðirnar við þessar innheimtuaðgerðir ríkisstjórnarinnar. En hvað er mikill plús miðað við stöðuna eins og hún er núna á tekju- og útgjaldafrumvörpunum? Mér er sagt að út frá því sem við höfum samþykkt séu þetta 4,3 milljarðar kr. sem við erum í plús. Getur einhver í þingsalnum sagt að svo sé ekki? Það er að minnsta kosti enginn sem veit það, þetta er það sem ég fékk hjá nefndarritara fjárlaganefndar, 4,3 í plús. Þá langar mig að nefna að það sem vantar upp á er 3,1 milljarður. Forsvarsmenn allra heilbrigðisstofnana á Íslandi, níu talsins, hafa tekið saman að 3,1 milljarð vantar til að hægt sé að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á næsta ári að þeirra mati. Það vantar 3,1 upp á en í fjárlagafrumvarpinu erum við í plús um 4,3 þannig að það eru til peningar til að setja í heilbrigðiskerfið jafnvel þótt menn fari ekki í neina frekari skattheimtu. Það eru til peningar til að forgangsraða í heilbrigðiskerfið í því magni sem forsvarsmenn allra heilbrigðisstofnana á Íslandi meta. Þeir meta það svo.

Þessi ríkisstjórn hefur sagt: Já, en við erum að koma til móts við heilbrigðiskerfið, aldrei hefur verið sett meira í það. Nú á milli umræðna í meðferð þingsins á þessu máli hækkuðum við um 1 milljarð í Landspítalann.

Þetta er rétt, en við erum búin að vera í bakkgír mjög lengi. Það dugir ekki sem þessi ríkisstjórn er að ganga út af með. Að mati forsvarsmanna heilbrigðiskerfisins á nauðsynlegri þjónustu er það ekki nóg og samkvæmt landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins á að forgangsraða skattfé fyrst í brýn og áríðandi verkefni, orðrétt. Fyrst var þar örugg heilbrigðisþjónusta, orðrétt. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn, a.m.k. flokksmenn á flokksþingi flokksins, sagði að ætti að forgangsraða.

Nú hefur fjármálaráðherra verið spurður úr þessum ræðustól hvað honum finnist um ástandið, um það að læknar séu í verkfalli, um ástand heilbrigðiskerfisins og sér í lagi læknadeiluna. Hann sagði orðrétt að það væri afar áríðandi að leysa þetta. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að hlusta á sinn eigin aðalfund og það sem formaður flokksins segir á þá klárlega að forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Sjálfstæðismenn geta samt haft hallalaus fjárlög upp á 1,2 milljarða þótt þeir forgangsraði í heilbrigðiskerfið. Það er hægt. Þar stöndum við núna.

Að sjálfsögðu hefði verið hægt að fara í aðra skattheimtu en það þarf ekki að gera það. Þegar öllu er á botninn hvolft getur þessi ríkisstjórn ekki sagt að hún sé að forgangsraða í heilbrigðiskerfið. Hún getur ekki sagt það af því að það eru til peningar til að gera það jafnvel þó að það virðist vera forgangsatriði þessarar ríkisstjórnar að vera með hallalaus fjárlög. Hún getur gert hvort tveggja. Ég skil ekki hvað menn eru að hugsa annað en það að reyna að skapa sér einhverja stöðu um það að við semjum ekki og vona að hinn aðilinn segi ekki upp. Það er það sem heilbrigðisráðherra virðist halda, a.m.k. segja. Hann segir: Ég trúi því ekki að læknar segi upp. Kannski eru menn bara að reyna að skapa sér sterka stöðu — en læknar eru að segja upp. Í dag eru læknar 1.100 talsins. 66 segja upp á ári hverju. Í gamla daga fóru Íslendingar út eins og núna, menntuðu sig og komu aftur til baka. 80% af sérfræðingunum komu til baka. Þess vegna erum við með gott heilbrigðiskerfi. Við erum með sérfræðingana eins og bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn töluðu um í kosningaloforðum sínum, þá töluðu þeir um að það verðmætasta í heilbrigðiskerfinu væri mannauðurinn, báðir flokkar alveg skýrir þar. Ég er sammála því. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum með öflugt heilbrigðiskerfi, þessir sérfræðingar sem fóru í bestu háskóla heimsins komu aftur heim. Það gera miklu færri í dag og þeir sem koma, segir mér Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, eru líklegir til að fara aftur út innan eins eða tveggja ára. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Það eru til 4,3 milljarðar í plús á þessum fjárlögum og við getum sett 3,1 í heilbrigðiskerfið og jafnvel rúmlega það, (Forseti hringir.) fengið hallalaus fjárlög og forgangsraðað í heilbrigðiskerfið.