144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:23]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá að þetta eru verkefni sem hv. þingmaður vill sjá koma til framkvæmda en þá langar mig að spyrja þingmanninn hvernig eigi að koma þeim til framkvæmda. Ég skil að meiri hlutinn ætli ekki að fara í einhliða afnám matartolla enda hefði hann átt að vinna þetta betur í haust. Það er alveg hægt að gera það. Það væri kannski dálítið snúið og mundi þýða að menn þyrftu að fara í svolitla vinnu núna að finna aðrar leiðir til að gera þetta og væri hægt að koma til móts við bændur eða búvöruframleiðendur almennt í tekjuaukalögum á næsta ári eða eitthvað svoleiðis.

Hvernig sér þingmaðurinn að þetta muni gerast? Þetta frestast alltaf. Ég hef spurt aðra þingmenn að þessu, m.a. hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar. Hann telur að ríkisstjórnin sé að vinna að einhverju leyti í laxveiðidæminu, að laxveiði verði ekki undanskilin virðisaukaskattinum. Síðan heyri ég frá hv. þm. Pétri H. Blöndal að hann telji að efnahags- og viðskiptanefnd sé að gera það þannig að þarna eru misvísandi skilaboð. Það vekur upp hjá mér þá hugmynd að menn séu bara að leika þann leik að fresta málinu og á endanum út í hið óendanlega. Eða er einhver raunveruleg geta til að ná þessu fram, þ.e. nógur pólitískur vilji til að þingmaðurinn í sínum flokki, í Framsóknarflokknum, geri þetta raunverulega? Þó að ég sé ekki margra vetra í pólitík þekki ég samt sem áður að hlutirnir eiga það til að viðhalda sjálfum sér og tæknin er oft sú að fresta málinu, (Forseti hringir.) þá verður oft hægt að fresta því út í hið óendanlega.