144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:28]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það verður líklega miklu auðveldara að loka þeirri holu að virðisaukaskatturinn sé túlkaður af ríkisskattstjóra sem fasteignaleiga. Það er mjög auðvelt og þá er kannski spurningin hvort þessi breytingartillaga loki fyrir það með einu atkvæði. Við munum gera það á algjörlega sanngjarnan hátt. Það er spurning mín til þingmannsins: Hvers vegna gerum við það ekki bara núna? Nú er ríkisstjórnin að gera marga góða hluti hvað þetta varðar. Hún er að loka fyrir undanþágur í ferðaiðnaði á virðisaukaskatti á sanngjarnan hátt og gera skattkerfið skilvirkara á sama tíma. Hérna er tillaga um að taka bara einn annan lið á nákvæmlega sömu forsendum og gera þar af leiðandi skattkerfið sanngjarnara og skilvirkara, þetta er 2 milljarða kr. skattstofn. Hverju mundi það skila? Það veltur á því í hvaða þrepi það mundi lenda. Hefur þingmaðurinn hugmynd um það? Ég hef ekki hugmynd um í hvaða þrepi þetta mundi lenda. En klárlega mundu einhver hundruð milljóna skila sér þrátt fyrir að vísu inn- og útskatt. Ef við horfum til þess sem Sjúkrahúsið á Akureyri vantar umfram það sem ríkisstjórnin og meiri hlutinn í nefndunum ætlar að veita því eru það 55 milljónir. Við getum komist með það þar. Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu vantar 250 milljónir. Það að taka þennan litla skatt inn gæti skilað okkur því. Það er nokkuð sem við munum standa frammi fyrir í atkvæðagreiðslunni, sanngjarn, skilvirkur skattur sem við látum annars bara renna út í sandinn.