144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er auðvitað óþarflega stórt mál og flókið til að útkljá í örstuttum andsvörum. En það verður að hafa í huga að staðan á Íslandi er nokkuð sérstök. Að uppistöðu til er innflutningur matvæla til Íslands ótollaður og þannig hefur það lengi verið. Það eru engir tollar lagðir á innflutning suðrænna ávaxta og nýlenduvara almennt. Að uppistöðu til eru ekki tollar á þeirri næstum 50% fæðuþarfar þjóðarinnar sem er flutt inn. Það er af því að við erum ekkert með þá framleiðslu og höfum fyrir löngu samið um tollfrelsi í viðskiptum með þau, gjarnan til þess að ná fram hagstæðari tollum fyrir útflutning á sjávarafurðum. Landbúnaðurinn hefur sögulega séð mætt afgangi í slag Íslands við það að ná niður tollum á sinni aðalútflutningsgrein sem var sjávarútvegurinn. Þess vegna mundi það hitta hann dálítið harkalega ef menn allt í einu kúventu um stefnu og ætluðu að taka af honum alla tollvernd án þess að hafa náð að semja um gagnkvæmni í þeim efnum. Ég minni aftur á það sem ég minnti á hér, ef við hefðum framleiðsluna gætum við til dæmis flutt út miklu meira skyr, en það eru það háir tollar á því í flestöllum ríkjum að þegar tollkvótinn er búinn inn á Evrópusambandið er hagkvæmara að koma framleiðslunni fyrir annars staðar. Svipað gildir um vissar greinar kjöts sem við gætum flutt út í talsvert meira mæli ef við hefðum rýmri tollkvóta eða tollfrelsi.

Ég held að það sé almennt ekki við því að búast að menn fari í breytingar af þessu tagi öðruvísi en í einhverri gagnkvæmni. Við höfum verið að lækka tolla í samningum og reyna að mætast einhvers staðar, t.d. tengdust því tollalækkanir og niðurfellingar hjá okkur á tollum á ákveðnum vörum þegar fríverslunarsamningurinn var gerður við Kína. Þær eru kannski ekki fluttar inn í miklu magni, en engu að síður var það þó þannig og öfugt.

Það sem ég er að reyna að koma að hér er að þetta er angi af miklu stærra máli en svo að það verði, held ég, útkljáð með einhverjum einföldum (Forseti hringir.) allsherjarbreytingartillögum þótt hreystilegar séu.