144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona sannarlega að þetta sé ekki rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að veiðigjöldin komi hér aftur til skoðunar á vorþinginu því að það virðist bara vera hægt að endurskoða veiðigjöldin með einum formerkjum hjá þessari ríkisstjórn, þ.e. til lækkunar, ítrekað.

Ég vil um auðlegðarskattinn segja að það er rétt sem hv. þingmaður segir að við töluðum alltaf um auðlegðarskattinn, þ.e. það stig auðlegðarskatts sem lagt var á eftir hrun sem tímabundna aðgerð. Við töluðum líka um það sem tímabundna aðgerð sem fylgdi gjaldeyrishöftum og væri í gildi jafn lengi og það neyðarástand væri í efnahagsmálum þjóðarinnar að hér þyrftu að vera gjaldeyrishöft. Það hefur ekkert staðið á ríkisstjórninni að framlengja gjaldeyrishöftin. Auðvitað átti hún að framlengja auðlegðarskattinn með þeim.

Ég vil síðan segja um skattatæknileg rök Sjálfstæðisflokksins fyrir mismunandi prósentum sem of langt mál var fyrir hv. þingmann að fara út í í ræðustólnum og ekki nema von því að ekki eru nema örfá ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn stóð hér blár í framan í ræðustólnum (Gripið fram í: Grár fyrir járnum.) og sannfærði okkur um nauðsyn þess að lækka prósentuna úr 14% í 7% á matvöru og menningu sem var algert forgangsmál í huga Sjálfstæðisflokksins. Brýnasta hagsmunamál heimilanna í landinu var að lækka skattprósentuna á mat og menningu úr 14% í 7%. Svo koma þessir sömu þingmenn nokkrum árum seinna og tala fyrir því að hækka þurfi hann úr 7% í 12%, svo seinna í 14%. Nú eru þeir að segja okkur að það eigi ekki að vera 12% heldur 11%, en þeir séu hættir við 14%. Það er bara ósköp eðlilegt að mönnum dugi ekki tvær mínútur til þess að gera grein fyrir slíkum hringlandahætti og stefnuleysi eins og þetta lýsir.