144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég skildi ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers rétt er hann sammála því að breikka skattstofnana, þ.e. að fækka undanþágum, sammála því að minnka bil á milli skattþrepa. En svo kom fram að það væri margt sem væri ekki nógu vel skoðað og ekki gott í þessum tillögum. Hvað er ekki gott í þessum tillögum? Er það af því að við fellum niður vörugjöldin af sykri?

Þegar maður veltir fyrir sér þessari ótrúlegu andstöðu stjórnarandstöðunnar við að fella niður vörugjöldin á sykrinum þá kom auðvitað í ljós að þetta var aðeins tekjuauki fyrir ríkissjóð. Þetta breytti í engu neysluvenjum landans. Og það er svolítið sérkennilegt í ljósi þess að í allri umræðu um hækkun á mat, þ.e. þessari prósentuhækkun á mat, segja menn í öðru orðinu að fólk eigi þá ekki fyrir mat en svo finnst þeim allt í lagi að hækka sykurinn, sem við vitum þó að er í matarkörfu allra. Þetta er svo mótsagnakennt og í raun og veru óskiljanlegt. Þess vegna vil ég fá svar við því hvernig þetta kemur heim og saman.