144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður ef hv. þingmanni hefur ekki leiðst undir ræðu minni og hugsanlega mundi hann nota orðið „afbökun“ yfir það ef ég segði að draga mætti þá ályktun af andsvari hans að ræður þyrftu helst að vera leiðinlegar til þess að vera góðar á Alþingi Íslendinga. Eins og hv. þingmaður veit hef ég eftir megni kosið að hafa annan háttinn á ræðuhöldum mínum hér á Alþingi Íslendinga.

Hitt gladdi mig ósegjanlega að hv. þingmaður notaði alla sína ræðu til þess að bresta á hraðan flótta frá fyrri vörn sinni fyrir því sem ég ályktaði að væri boðun enn frekari lækkunar á veiðigjöldum. Ég skil það mætavel að hv. þingmaður vilji reyna að fjarlægja sig því sem mest. Það er alltaf að koma fram betur og betur að allar þær kárínur sem fyrri ríkisstjórn þurfti að þola af hálfu m.a. hv. þm. Birgis Ármannssonar og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum og stórútgerðarinnar í landinu um að stefna hennar gagnvart veiðigjöldum mundi nánast rústa greininni, voru tómt bull og vitleysa. Það er að koma fram núna með hverjum ársreikningnum á fætur öðrum að það má segja að sú stefna sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beitti sér fyrir og ég studdi af einurð og geri enn hafi sannað sig, það sér ekki högg á vatni að því er varðar hagnað fyrirtækjanna.

Ég fór hér með ákveðnar tölur, og það er nú aldeilis annar bragur á þeim veruleika en þeim sem hv. þingmaður tók þátt í að draga hér upp á þeim sama degi og veiðigjöldin voru í umræðu hér og hingað á Austurvöll voru dregnar þúsundir manna af útgerðinni. Þar fór hún flatt. Og hv. þingmaður á að læra af reynslunni og passa sig á því að fara ekki flatt sjálfur á því að leggjast eins og flokkur hans í allt of mikla vörn fyrir þann fámenna hóp sem er því miður allt of sterkur í samfélaginu og virðist á (Forseti hringir.) köflum stjórna Sjálfstæðisflokknum.