144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að vísa til neinna sérstakra heimullegra samtala við framsóknarmenn til að upplýsa það að að innan þess flokks er andstaða við sykurskattinn. Tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst því beinlínis yfir opinberlega og annar hér úr þessum ræðustóli. Það var hv. þm. Frosti Sigurjónsson sem reifaði það í mjög ágætu máli hvernig hægt væri með því að halda sykurskattinum í tuttugu ár að reisa nýjan Landspítala fyrir það. Hann kom jafnframt með býsna góð rök fyrir því af hverju það væri skothelt að gera það í þessari stöðu.

Hv. þingmanni er hugleikið hvað olli því að þessi staða kom upp með matarskattinn. Ég man aldrei eftir því að það hafi gerst áður að við fjárlagafrumvarp hafi heill þingflokkur gert fyrirvara við það, almennan fyrirvara að vísu, en það kom skýrt fram í andsvörum mínum og nokkurra hv. þingmanna Framsóknarflokksins við 1. umr. að það var við matarskattinn. Níu þingmenn Framsóknarflokksins lýstu andstöðunni opinberlega í fjölmiðlum og héðan úr þessum stóli. Allir runnu af hólmi, enginn þeirra stendur eftir, að vísu með einni undantekningu, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Hvernig gerðist þetta? Ég held, frú forseti, að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi aldrei verið fullkomin alvara með það að klára þetta mál. Það var hins vegar krafa um það innan úr flokknum og frá Viðskiptaráði og hann var bara að krota í kladdann sinn, vildi geta sagt það gagnvart ýmsum æstustu fylgismönnum hækkunarinnar innan síns flokks og ekki síst gagnvart Viðskiptaráði, sem stundum stýrir nú stefnu Sjálfstæðisflokksins, að hann hefði reynt en verið stoppaður. Það var einn maður sem sofnaði á verðinum, það var hæstv. forsætisráðherra. Hann uppgötvaði þetta ekki (Forseti hringir.) og lét ekki flokkinn vita af því fyrr en hann var búinn að samþykkja það og það var um seinan.