144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætla bara að vekja athygli forseta á því að hér er enginn nefndarmaður meiri hlutans í viðkomandi þingnefnd. Hér er enginn ráðherra og hefur ekki sést í dag. Auðvitað gleður það okkur að hv. þm. Birgir Ármannsson sé hér af og til í dyrunum en þetta er engin frammistaða. Að vísu kemur hér hæstv. atvinnumálaráðherra, það er allgott. En til dæmis gagnvart þeirri ræðu sem flutt var síðast þá hefði verið bragur á því að hæstv. menntamálaráðherra eða einhver af ábyrgðarmönnum stjórnarmeirihlutans hefði haft einhverja tilburði til að svara því það er verið að ræða alvörumál.

Það er illa komið umræðum hér á Alþingi ef málefnalegar og vel rökstuddar ræður sem vekja athygli á mjög alvarlegum hlutum eins og þeim hver gætu orðið örlög íslenskrar menningar ef þessi pólitík öll gengur hér í gegn — nei, það eru ekki tilburðir til þess að sitja hér við umræðuna, hvað þá að reyna að svara. Mér finnst ekki neinn bragur á þessu. Ég held að það eigi að koma þeim skilaboðum til ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að okkur sé misboðið með þessu.