144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Breytingartillaga Pírata sem við vorum að greiða atkvæði um að fá á dagskrá í þessu máli með afbrigðum miðar að því sem við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddum hérna um. Þetta er breytingartillaga við breytingartillögu. Upprunalega breytingartillagan miðar að því að fella úr gildi strax og lögin yrðu samþykkt tolla og kvóta á matvæli. Breytingartillagan við þessa breytingartillögu felur í sér að hún mundi ekki ganga í gildi strax. Það mundi taka eitt ár þannig að hún tæki gildi 1. janúar 2016 til að gefa þá ríkisstjórninni svigrúm til að klára að semja um afnám tolla við önnur ríki á móti og finna skilvirkari leiðir til að innheimta skatt til að styðja við búvöruframleiðslu. Eins og þetta er í dag eru þessir matartollar og kvótar það sem það skilar inn en sá skaði sem það veldur neytendum í formi hærra matvælaverðs skilar sér mjög illa til búvöruframleiðenda. Það væri hægt að taka upp skilvirkari skatt. Þetta er hvatning til ríkisstjórnarinnar, ef við samþykkjum þetta núna er komin hvatning frá þinginu til að klára þessi mál, ýta þessum óskilvirka skatti út af borðinu og innheimta það sem á svo að nota til að styðja búvöruframleiðendur með skilvirkari skattheimtu.

Við erum áfram að ræða þetta virðisaukaskattsfrumvarp og fleiri breytingar, 2. mál ríkisstjórnarinnar, og mig langar aftur að nefna að við erum í plús í heildarpakka ríkisstjórnarinnar, þ.e. ef við berum saman tekjurnar og útgjöldin. Við erum með eina 4,3 milljarða í plús og það vantar 3,1 milljarð í heilbrigðiskerfið samkvæmt forsvarsmönnum heilbrigðiskerfisins á Íslandi, þessara níu aðalstofnana, Landspítalans – háskólasjúkrahúss, Sjúkrahússins á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og svo sex heilbrigðisstofnana víðs vegar um land. Við höfum þessa peninga og getum forgangsraðað þeim í heilbrigðiskerfið eins og allir landsmenn vilja, 90% landsmanna vilja sjá forgang í þágu heilbrigðiskerfisins. Við getum verið með hallalaus fjárlög, sem virðist vera forgangsatriði ríkisstjórnar ásamt skilvirkara skattkerfi og slíku, en jafnframt tryggt að í heilbrigðiskerfið skili sér þeir peningar sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins um land allt segja að séu nauðsynlegir til að veita nauðsynlega þjónustu. Þetta er sú staða sem við stöndum frammi fyrir.

Mig langar að nefna það aftur að hin skattbreytingin sem við erum að kalla eftir með þingmönnum úr öllum minnihlutaflokkunum gengur út á að loka loksins gatinu á virðisaukaskattinum. Hér hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins komið upp, hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi að þetta væri gat í innheimtunni á virðisaukaskatti og að það þyrfti að loka því gati, að það þyrfti að fara í þá vinnu o.s.frv. Það er búið að fara í vinnuna. Skjalið liggur fyrir. Þetta er 2 milljarða kr. skattstofn sem mundi skila okkur hundruðum milljóna. Ef ég les bara hvað vantar í heilbrigðiskerfið samkvæmt forsvarsmönnum þess vantar Sjúkrahúsið á Akureyri 55 milljónir, Heilbrigðisstofnun Norðurlands 332 milljónir, Heilbrigðisstofnun Vesturlands 935,3 milljónir og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins 250 milljónir. Þetta gat í virðisaukaskattinum sem er undanþága gerir skattkerfið óskilvirkt. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að kalla eftir því að kerfið verði gert skilvirkara og afnám þessara undanþágna gæti skilað því að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fengi þetta. Ef við forgangsröðuðum öðruvísi gæti hún líka skilað því að við fengjum aukalega 10–15% í það sem heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni vantar. Nú vantar þar 2 milljarða. Það á að fara í að veita þeim 10% (Forseti hringir.) af því sem þær vantar. Við getum aukið það upp í 20–25% með því að taka laxveiðina inn í virðisaukaskattinn.