144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð um þá breytingartillögu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umfjöllunarefni og við boðuðum við atkvæðagreiðslu við 2. umr. um þetta sama þingmál fyrir helgina þegar afnám ákveðinna flokka vörugjalda var undir. Þá boðuðum við þá breytingartillögu sem hér er fram komin. Eins og komið hefur fram lýtur hún að því að sykurgjaldið sem innheimt hefur verið verði einfaldlega áfram innheimt. Í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins á morgun koma fram tillögur um að verja tekjunum af því til uppbyggingar í heilbrigðiskerfinu, ekki síst á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og sömuleiðis til að draga úr þeirri miklu aukningu sem á að verða á kostnaðarhlutdeild sjúklinga í tengslum við S-merktu lyfin svokölluðu. Það eru sjúklingar með ýmsa sjúkdóma eins og MS, krabbamein og aðra slíka alvarlega sjúkdóma sem fá lyf heima hjá sér og ætlunin er að fara að innheimta hjá á næsta ári en við viljum nota þennan tekjustofn til að koma í veg fyrir það.

Offita er orðin eitthvert stærsta heilbrigðisvandamál sem okkar heimshluti glímir við í dag. Honum fylgir gríðarlegur samfélagslegur kostnaður. Jafnvel þó að gjald af þessu tagi hefði ekki neyslustýringaráhrif heldur aðeins þau áhrif að afla tekna fyrir ríkissjóð er það sannarlega réttlætanlegt út frá sjónarmiðum um þann mikla tilkostnað sem fellur til við það að við lifum óheilsusamlegra líferni og neytum mikils viðbætts sykurs í matvöru.

Þessi sjónarmið eru ekki bara bundin við Samfylkinguna, Vinstri græna og Bjarta framtíð sem standa saman að þessari tillögu ásamt með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur heldur hefur það komið alveg skýrt fram hjá ýmsum þingmönnum Framsóknarflokksins að svipuð sjónarmið eru uppi þar. Ég hygg að í raun og veru sé meirihlutavilji þingmanna fyrir því að halda áfram gjaldtöku á sykraðar vörur og halda þeim tekjum í ríkissjóði. Ég hygg að það sé full samstaða um það, jafnvel þvert á alla flokka, að ef slíkar tekjur yrðu fyrir hendi væri skynsamlegt að nýta þær til að efla heilbrigðiskerfið.

Ég heiti á þá þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa talað í þessa veru, ég nefni sérstaklega hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónsson, og hv. þm. Harald Einarsson svo ég nefni tvo framsóknarmenn, að styðja málið og tala fyrir því að alltént þeirra þingflokkur, ef ekki stjórnarflokkarnir báðir, leggist á sveif með okkur í stjórnarandstöðunni í þessu málefni. Það er einfaldlega heilbrigði skynsemi að ríkið leggi gjald á sykur og láti það gjald standa straum af hluta af kostnaðinum í heilbrigðiskerfinu. Sannarlega er ekki vanþörf á að fá þar inn fjármuni til að í fyrsta lagi draga úr kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem eykst mjög verulega á næsta ári, í öðru lagi til að taka á þeim erfiðu málum sem uppi eru í kjaramálum heilbrigðisstétta og í þriðja lagi á uppbyggingu í innviðunum sjálfum, tækjunum og húsbyggingu.