144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í þessu frumvarpi og með breytingum frá síðasta ári er náttúrlega verið að afsala sér tekjum, meðal annars þessu sérstaka veiðigjaldi sem er lægra núna en það hefur verið um áraraðir, lægra að því leytinu til að þetta sérstaka veiðigjald lagðist á hagnað, mikilvægt er að átta sig á því. Það lagðist á það sem umfram var eftir að menn höfðu tekið öll þau gjöld sem þeir gátu reiknað sér og allar tekjurnar, og umfram það var hagnaður. Á það lagðist sérstaka veiðigjaldið. Það er bara sanngjörn og ágæt leið til að hala inn auknar tekjur umfram virðisauka og aðrar svona tekjur, vegna þess að þetta er sérstök staða. Verið er að veita ákveðnum hópi í samfélaginu ríkiseinkaleyfi til að undanskilja aðra til að nýta þessa sömu auðlind. Og þá á að sjálfsögðu að taka eitthvert sérstakt veiðigjald.

Það er í rauninni ekki andstaða við það að taka eigi eitthvert sérstakt veiðigjald, því að í frumvarpi sem er verið að vinna að eru hugmyndir um að hafa sérstakt veiðigjald. Það er bara reiknað aðeins öðruvísi, og svo geta menn rifist um þá upphæð. Það er því í rauninni ekki andstaða við það að vera eigi sérstakt veiðigjald þegar menn fá að útiloka aðra frá nýtingu á sameiginlegri auðlind. En hversu mikið á það að vera? Og þá er spurningin: Hvernig ætlum við að forgangsraða skattheimtu í samfélaginu? Ein góð regla væri að vera ekki á sama tíma og sú grein sem nýtur hvalreka í formi þess að krónan hefur lækkað. Það er hvalrekinn, vegna lægri krónu og við það að vera að nýta sameiginlega auðlind. Á sama tíma er verið að lækka það sem hún borgar til samfélagsins.

Það varð hrun, læknar sátu eftir og það þurfti að setja í bakkgír í heilbrigðiskerfinu öllu, en á sama tíma og vegna hrunsins og að krónan hrundi er það hvalreki fyrir sjávarútveginn, það gengur betur, en samt sem áður á að lækka sérstaka veiðigjaldið á hagnaðinn. Hagnaðinn. Þarna höfum við afsalað okkur tekjum, tekjum sem hefði verið miklu skynsamlegra að halda inni í tekjustreyminu og setja í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Þetta er bara spurning um forgangsröðun.

Í ofanálag, áður en við byggjum upp heilbrigðiskerfið eftir hrunið, var auðlegðarskatturinn tekinn af. Það hefði alveg verið hægt að halda honum aðeins lengur til þess að við gætum byggt upp heilbrigðiskerfið okkar. En síðan kannski komum við að því, jú, að jafnvel hefði það ekki þurft, því að eins og við stöndum og eins og þessi fjárlög eru núna, alla vega til að halda heilbrigðiskerfinu á floti, þá vantar rétt rúma 3 milljarða, þeir voru 3,1. Nú hefur fjárlaganefnd lagt til að 100 milljónir bætist við í heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. En svo að við skiljum þessar tölur þá eru þessar 100 milljónir ekki nema 5% af því sem forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni kölluðu eftir, þetta er 5% af því. Búið var að hækka um tæp 5%, um 80 milljónir, og svo eiga að bætast við núna 100 milljónir, þannig að við náum upp í tæp 10% af því sem landsbyggðin, forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni hafa kallað eftir.

Þrátt fyrir að menn afsali sér sérstöku veiðigjaldi á hagnað þeirra sem geta undanskilið alla aðra til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna, þrátt fyrir það og þrátt fyrir að við séum ekki lengur með auðlegðarskatt, þrátt fyrir það erum við samt sem áður núna með hallalaus fjárlög upp á 2,3 milljarða. Það væri því hægt að forgangsraða 3,1 eða 3 milljörðum í að uppfylla það sem er mat forsvarsmanna heilbrigðisstofnana um land allt að þurfi til að veita nauðsynlega þjónustu, læknisþjónustu. Þetta orð „læknisþjónusta“ er orð sem ég hef bara heyrt, maður heyrir yfirleitt heilbrigðiskerfið og svoleiðis, en ég heyrði þetta orð. Eini staðurinn þar sem ég hef rekist á það nýlega er í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Þar er einmitt talað um að forgangsraða eigi skattfé í brýn og áríðandi verkefni og þar er fyrst nefnd örugg heilbrigðisþjónusta.

Nú stöndum við frammi fyrir því eins og staðan er í dag að við erum með frábært heilbrigðiskerfi, sem er frábært vegna þess að við höfum öfluga sérfræðinga sem fóru um allan heiminn og komu aftur heim, þ.e. 80% þeirra. Í dag eru þeir að skila sér í miklu minna mæli, um 20–30 sérfræðingar skila sér heim á ári. Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, sagði mér að þeir fari oft út aftur eftir tvö, þrjú eða fjögur ár. Það eru 66 læknar sem fara utan á ári á móti þeim 20–30 sem koma til landsins. Í ofanálag munu 300 læknar fara á eftirlaun á næstu tíu árum, þannig að við getum að meðaltali bætt við 30 læknum sem munu ekki starfa áfram í íslenska heilbrigðiskerfinu, 30 ofan á þessa 66 sem fara úr landi til að starfa erlendis. Og þá erum við næstum því komin í 100 á móti þeim 20–30 sem koma til landsins sem sérfræðingar.

Annað sem Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, sagði mér líka — nei, fyrirgefið, það var líklega starfandi landlæknir sem sagði mér þetta, Leifur, já, það var Leifur sem sagði mér að á sumum deildum á Landspítalanum tali eldri læknarnir um það sín á milli að við séum búin að missa af kynslóð lækna, sem er mjög slæmt upp á það að þeir sem eldri eru geti miðlað til hinna yngri og það yrði samfella, samfella var orðið sem sitjandi landlæknir notaði, í starfinu. Við erum búin að missa úr kynslóð á sumum deildum.

Læknar hafa nú verið í kjaradeilu í marga mánuði. Menn eru ekki að sjá til lands. Hæstv. fjármálaráðherra talar þannig eins og hann tali upp þau laun sem læknar eigi að hafa, tekur sem sagt harða afstöðu gegn því að það skuli semja — nei, ekki gegn því að það skuli semja, við skulum hafa þetta rétt — hann tekur harða afstöðu gegn kröfunum og stendur mjög fast meðan heilbrigðisráðherra talar meira um þær áhyggjur sem hann hefur af málinu. En við skulum átta okkur á því að sá aðili sem hefur valdið og ber ábyrgðina á því að þessi kjaradeila leysist er ekki heilbrigðisráðherra heldur fjármálaráðherra. Hann hefur völdin þegar kemur að því að leysa þessa kjaradeilu og setja kjararáði einhver skilyrði og gefa þeim heimildir til samninga. Það er fjármálaráðherra. Ég las í Kjarnanum eða Fréttatímanum viðtal við heilbrigðisráðherra sem sagði að hann hafi ekki þær heimildir. Það er fjármálaráðherra sem sinnir því. Völd og ábyrgð þurfa að fara saman í þessu og það er fjármálaráðherrans.

Fjármálaráðherra er mjög ómyrkur í máli, hann tekur mjög harða afstöðu og margir læknar hafa orðið reiðir því hvernig fjármálaráðherra matreiðir þessar tölur og segir að meðallæknir sé með 1,1 milljón á mánuði, sérfræðingar með 1,3. En ef meðallæknir er með 1,1 milljón á mánuði þá hafa þeir læknar sagt sem hafa verið að senda mér skilaboð og hafa verið að fjalla um þetta í fjölmiðlum, sent inn greinar og komið fram í fréttum, að ef meðallæknir á Íslandi á að vera með þessa 1,1 milljón þá er hann í 200% vinnu. Og það segir svolítið mikið um heilbrigðiskerfið ef þetta er meðallæknirinn, þá er hann í allt of mikilli vinnu í gríðarlegu ábyrgðarstarfi. Eitt af því sem læknar benda einmitt á, það eru þrjú atriði sem hafa haldið í lækna hérna á Íslandi þó að þau hafi öll verið lakari en erlendis þá hafa þau samt sem áður haldið í þá, út af því að þau hafa ekki verið þeim mun lakari eins og það er orðið í dag, og það er aðstaðan, þ.e. aðbúnaðurinn við sjúklinga, þau tæki og lyf og aðstæður sem læknar hafa til að sinna sjúklingum sínum, það er vaktaálagið og það eru launin. Við vitum öll að það er ofboðslegt vaktaálag á lækna á Íslandi, þannig að það er kannski ekki skrýtið að meðallæknir sé með há laun, þó að ég efist um að hann sé með 1,1 milljón, og starfi í 200% vinnu. Ef svo er þá segir það sína sögu. Það er allt of mikið vaktaálag á læknum hér á landi og er ein af ástæðunum fyrir því að læknar hætta.

Það voru hjón sem hættu nýlega vegna þess að þau voru hætt að sjá hvort annað. Þau voru með börn og þurftu að skiptast á að vera á vöktum og það var ekkert hjónaband hjá þeim. (ÖS: Hvernig heldurðu að það sé að vera þingmaður?) Þau gátu ekki sést almennilega. Nú kallar einn þingmaður úr salnum, hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Hvernig heldurðu að það sé að vera þingmaður? Ég veit alveg um álag okkar þingmanna, en það er bara ákveðinn partur af árinu hérna hjá okkur og okkur er engin vorkunn að standa hér og við eigum að standa hérna miklu lengur, þó að svo virðist að þetta fari nú að klárast, að minni hlutinn sé búinn að missa það frá sér að halda þinginu hérna lengur, eins og ég hef verið að reyna að kalla eftir. Ég stend hér og tala bara til þess að geta nýtt öll þau tækifæri sem ég hef til að tala áður en þingið fer í frí. Það eru ekki margir í salnum, það eru þrír þingmenn. Þingmenn vilja bara drífa sig í jólafrí, það er eitthvað sem mér er orðið skýrt. Ég kvartaði um það fyrir helgina þegar verið var að ljúka umræðum þá snemma, einhvern tíma um fimm-, sex-, sjöleytið, nei fyrir það, og ég kvartaði undan því og nýtti öll þau tækifæri sem ég hafði. En ég er einn þingmaður og stjórna þessu ekki öllu saman. En ég get þó alla vega haldið áfram að tala hérna og benda á þessa stöðu.

Mig langar aftur að benda á það sem ég hef áður gert, að í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í síðustu viku benti hann á að staðan í læknadeilunni sé mjög — nú vantar mig orðið, hvernig var þetta aftur í tillögu Sjálfstæðisflokksins á landsþingi? Forgangsraða eigi fjármunum í það sem er — nú er það stolið úr mér, ég þarf að finna þetta — brýnt og áríðandi, það eru orðin, brýnt og áríðandi. Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri mjög brýnt að leysa þessa deilu. Hans eigin flokkur segir að forgangsraða eigi í slík verkefni á fjárlögum. Nú höfum við peninga til þess að forgangsraða. Við höfum 4,3 milljarða og náum samt hallalausum fjárlögum, sem virðist vera meginmarkmið hans flokks. Gott og vel. Hann getur forgangsraðað eins og honum sýnist, en það er alveg ljóst að hans eigin flokkur í landsfundarályktun vill forgangsraða í örugga heilbrigðisþjónustu, sér í lagi ef þau verkefni eru brýn og áríðandi. Það að leysa læknadeiluna er það. En það er ekki það sem verið er að gera núna. Fjármálaráðherra hefur völdin og ber þar af leiðandi ábyrgðina á því að deilan verði leyst. Hann tekur þá stöðu að blása það upp, búa til einhverja ímynd að læknar séu með svo ofboðslega há laun og að krafa þeirra muni hækka launin þeirra það mikið að það verði á við lágmarkslaunin í landinu. Það er staðan, það eru þau skilaboð sem hann vill senda út í samfélagið ásamt því að koma með þá gagnrýni — þetta er náttúrlega svolítill popúlismi að vera að reyna að etja þjóðfélagshópum saman á sama tíma og hann er alveg tilbúinn að forstjórar og framkvæmdastjórar og slíkir geti fengið 20–30% launahækkun, það er allt í góðu lagi fyrir honum.

Ég er svo sem ekkert á móti því sjálfur að framkvæmdastjórar og aðilar sem sannanlega búa til kringumstæður til að skapa mikil verðmæti séu með hærri laun. Þar er ég alveg sammála fjármálaráðherra. En sérfræðingar, læknar í heilbrigðiskerfinu okkar, sem allir landsmenn vilja setja í forgang óháð því hvar þeir eru í flokki, óháð því í hvaða kjördæmi þeir eru, óháð aldri, óháð efnahag — það er ekki það sem verið er að gera hér ef ekki eru nýtt þau hallalausu fjárlög sem við höfum, eða alla vega að einhverju leyti, til að tryggja það að þessi læknadeila verði leyst sem fyrst og til að setja eigi í heilbrigðiskerfið, eins og forsvarsmenn heilbrigðisstofnana um land allt hafa sagt að sé mat þeirra að þurfi til að veita nauðsynlega þjónustu. Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir. Það á að veita þeim á landsbyggðinni 10% af því sem þeir báðu um og Landspítalinn hefur fengið 60%, Sjúkrahúsið á Akureyri 50%. Landsbyggðin situr eftir mjög skuggalega og heilbrigðiskerfið í heild er ekki að fá það sem það þarf til að veita nauðsynlega þjónustu.