144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður taldi að ýmsa þingmenn þyrsti að komast hratt í jólafrí. Þá kalla ég hæstv. forseta til vitnis um það að ég hef síðustu 25 árin hvergi notið mín betur og hvergi liðið betur en á hinu háa Alþingi. Skemmtilegustu jólin sem ég minnist síðan 1990 voru jólin 1992 þegar við eyddum jólafríinu í að þrasa um fjárlagafrumvarpið fram á gamlársdag. Satt að segja fannst mér það dálítið notalegt að sitja hér undir ræðum þáverandi stjórnarandstöðu, sem var aðallega Framsóknarflokkurinn, og fyrir mig komu þeir í staðinn fyrir jólasveinana, en voru miklu náttúrulegri í því hlutverki.

Ég spyr hv. þingmann vegna þess að hann talar núna um það að hann sé andsnúinn því að leggja af auðlegðarskattinn, eins og ég var þegar það var gert. En hefur hann skipt um skoðun? Er það rangt hjá mér að þegar hv. þingmaður kom hér inn á þing fyrir 18 mánuðum þá lýsti hann í ræðu viðhorfum þar sem mér fannst hann hafa verið jákvæður gagnvart því sem þá var gert, að afnema auðlegðarskattinn?

Ég tek svo algjörlega undir með hv. þingmanni þar sem hann talar um sérstaka veiðileyfagjaldið. Það er kolröng forgangsröðun þegar um er að ræða að lækka það á sama tíma og töluverða fjármuni vantar til þess að geta treyst innviði heilbrigðiskerfisins. Hv. þingmaður sagði að gjaldið hefði verið lagt á hagnað sem meðal annars hefði skapast vegna falls krónunnar. Af því tilefni langar mig til að rifja það upp og segja hv. þingmanni frá því að Grandi til að mynda var að skila uppgjöri fyrir síðasta ár í erlendri mynt, í evrum talið, og hafði hagnaðurinn milli ára aukist úr 19,4 millj. evra upp í 34,9 millj. evra. Það er því alveg ljóst að hvort sem litið er á krónur eða gjaldeyri eða í erlendri mynt er hagnaðurinn að stóraukast þrátt fyrir veiðigjaldið. (Forseti hringir.) Það er því hárrétt sem hv. þingmaður sagði, auðvitað eiga þessi fyrirtæki að leggja meira til (Forseti hringir.) samneyslunnar fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.