144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að við eigum að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Það er rétt að rifja það upp, út af þeim hnút sem læknadeilan er í, að hæstv. heilbrigðisráðherra lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum að semja við sérfræðilækna, sem greitt er af Sjúkratryggingum, um 20% launahækkun. Að sjálfsögðu hlaut það að leiða til samanburðar, það er viðmiðunarhópur, einn af þeim, sem læknarnir innan hins opinbera geira bera sig saman við. Það er því mjög skrýtið þegar ríkisstjórnin myndar sig ekki einu sinni til þess að reyna að koma til móts við þá þannig að unnt sé að brúa þetta bil.

Sömuleiðis vil ég nota tækifærið og taka undir gagnrýni hv. þingmanns á þau orð sem féllu af vörum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrr á þessum degi úr þessum ræðustóli þar sem hann hélt fram ákveðnum tölum — sem efalítið eru réttar — sem launum lækna. Það virtist sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra teldi það vera of mikið að læknar sumir hefðu 1,1 millj. kr. á mánuði. En við vitum hvernig það er til komið. Það er skortur á læknum innan opinbera geirans. Það leiðir til mikils álags, það leiðir til þess að þeir læknar sem eru starfandi þurfa að leggja meira á sig og það er þannig sem launin tosast upp í þetta. Það er gríðarlegt vinnuálag.

Ég held að við séum nú á þessari stundu komin að ákveðnum skilum, ég held að í fyrsta skipti megi halda því fram að íslenska heilbrigðiskerfið sé í háska statt. Þess vegna tek ég undir varnaðarorð hv. þingmanns og þakka honum sömuleiðis fyrir það hversu eljusamur hann hefur verið við að ræða þessi mál héðan úr ræðustól. Hv. þingmaður á hrós skilið fyrir það.